Kría sótti eitt stig í heimsókn sinni til ungmennaliðs Vals í Origohöllina á Hlíðarenda í gær í viðureign liðanna í Grill 66-deild karla í handknattleik, 25:25. Valur var með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 12:10.
Eins og oftast áður var Kristján Orri Jóhannsson allt í öllu í sóknarleik Kríu. Hann skoraði 10 mörk að þessu sinni. Sigurður Ingiberg Ólafsson, markvörður Kríu, kunni einnig vel við sig á parketinu í Origohöllinni enda varð hann Íslandsmeistari og bikarmeistari með Valsliðinu vorið 2017.
Benedikt Gunnar Óskarsson, aðsópsmesti leikmaður ungmennaliðs Vals á leiktíðinni, var í gæslu Kríumanna nær alla leikinn, og náði fyrir vikið ekki að láta eins mikið að sér kveða eins og stundum áður. Einar Þorsteinn Ólafsson var ekki gjaldgengur með Valsliðinu að þessu sinni þar sem hann hefur fengið veigameira hlutverk í Olísdeildarliði Vals.
Kría eru í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki og er fimm stigum á eftir HK og Víkingi sem eru efst. Ungmennalið Vals situr í þriðja sæti með 17 stig.
Mörk Vals U.: Róbert Nökkvi Petersen 7, Benedikt Gunnar Óskarsson 5, Tómas Sigurðsson 4, Breki Hrafn Valdimarsson 3, Andri Finnsson 3, Þorgeir Arnarsson 2, Óðinn Ágústsson 1.
Mörk Kríu: Kristján Orri Jóhannsson 10, Viktor Andri Jónsson 5, Gísli Gunnarsson 3, Viktor O. Þorsteinsson 3, Vilhjálmur Geir Hauksson 2, Filip Andonov 1, Egill Ploder Ottósson 1.
Staðan í Grill 66-deild karla.