Handknattleiksdeild ÍBV hefur gengið frá nýjum tveggja ára samningi við Söru Dröfn Richardsdóttur hægri hornamann í bikar- og deildarmeistaraliði félagsins.
Sara Dröfn er ung og bráðefnileg handboltakona, en hún hefur tekið gríðarlegum framförum undanfarið og hefur fest sig í sessi í ÍBV liðinu. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún leikið stórt hlutverk í góðum árangri sem liðið hefur náð hingað til á tímabilinu.
Sara Dröfn hefur á undanförnum árum leikið með yngri landsliðum Íslands og staðið sig með mikilli prýði á þeim vettvangi.
„Við erum afar ánægð með að hafa Söru áfram í herbúðum ÍBV og hlökkum til áframhaldandi samstarfs,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍBV.
Sara Dröfn mætir galvösk til leiks með ÍBV gegn Haukum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik á laugardaginn.