Gríska liðið Olympiacos tókst að ná jafntefli í fyrri viðureigninni við ungverska liðið FTC, 28:28, í fyrri undanúrslitaviðureign Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla, þeirri sömu og Valsmenn eru í. Leikurinn fór fram í Búdapest í dag.
Gríski landsliðsmaðurinn Savvas Savvas skoraði tvö síðustu mörk leiksins og tryggði mikilvægt jafntefli. Síðari viðureign liðanna fer fram í Aþenu eftir viku. Samanlagður sigurvegari leikjanna mætir annað hvort Val eða rúmenska liðinu Minaur Baia Mare í úrslitum Evrópubikarkeppninnar.
Valur og Minaur Baia Mare mætast á Hlíðarenda annað kvöld klukkan 19.30 og öðru sinni í Rúmeníu eftir viku.
Miðasala á Stubb.is – smellið hér.
FTC var marki yfir í hálfleik, 13:12, og náði mest þriggja marka forskoti í síðari hálfleik, 24:21. Ekki dugði það til þess að slá leikmenn gríska liðsins út af laginu. Þeir svöruðu með fjórum mörkum í röð og komust yfir, 24:25. Viðureignin var jöfn og spennandi allt til loka.
Fyrrnefndur Savvas skoraði átta mörk fyrir Olympiacos. Slóveninn Miha Kavcic var næstur með sjö mörk.
Ungverski landsliðsmaðurinn Bence Imre skoraðu sjö mörk fyrir FTC. Alex Bognar, Bence Nagy, Jakub Mikita og Pétar Kovacsics skoruðu fjögur mörk hver.