Þýska meistaraliðið SC Magdeburg hefur samið við sænska línumanninn Oscar Bergendahl og kemur hann til félagsins nú þegar. Bergendahl á að leysa af Danann Magnus Saugstrup sem meiddist á hné í viðureign Magdeburg og Kiel í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á síðasta sunnudagin. Ekki er búist við að Saugstrup leiki fleiri leiki með Magdeburg á tímabilinu.
Eftir að ljóst varð að meiðsli Saugstrup voru alvarleg urðu forráðamenn þýska meistaraliðsins að grípa til ráðstafana eins og gert var eftir að Ómar Ingi Magnússon meiddist og fór í aðgerð að loknu heimsmeistaramótinu. Þá samdi Magdeburg strax við leikmann til þess að hlaupa í skarðið.
Samningur Bergendahl við Magdeburg er í gildi fram á mitt árið 2025.
Stuttur stans í Stuttgart
Bergendahl, sem er 27 ára gamall, gekk til liðs við Stuttgart á síðasta ári eftir fjögurra ára veru hjá danska liðinu GOG. Varð hann m.a. danskur meistari með liðinu á síðasta vori eins og Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður. Bergendahl hefur átt sæti í sænska landsliðinu undanfarin ári. Hann varð m.a. Evrópumeistari fyrir ári síðan og í silfurliðinu á HM 2021.
Marino Maric hleypur í skarðið fyrir Bergendahl hjá Stuttgart en Leipzig leysti Króatann undan samning í fyrrdag, hálfu ári fyrr en til stóð.