- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Stundum er þetta svona“

Sverrir Eyjólfsson ræðir við sína menn í leiknum í dag. Mynd/Þorgils G - Fjölnir handbolti
- Auglýsing -

„Stundum er þetta svona,“ sagði Sverrir Eyjólfsson þjálfari Fjölnis eftir eins marks tap í oddaleik fyrir Víkingi í Safamýri í dag, 23:22, eftir dramatískar lokasekúndur. Halldór Ingi Jónasson skoraði sigurmark Víkings yfir endilangan völlinn á síðustu sekúndu eftir að Fjölnismenn töpuðu boltanum þegar fimm sekúndur voru eftir. Fimmtán sekúndum fyrir leikslok skaut Kristján Orri Jóhannsson í þverslá Fjölnismarksins.

Ef og hefði

„Eftir á að hyggja fer maður að velta þessu og hinu fyrir sér. Þetta er alltaf spurningin um ef og hefði og allt það. Átti ég að vera með markvörð í markinu þegar við hófum lokasóknina í jafnri stöðu, manni færri. Atriðin eru mörg sem maður veltir fyrir og á eftir að draga lærdóm af,“ sagði Sverrir sem var stoltur af sínum mönnum.

Fórum þvert á spár

„Ég er stoltur af liðinu mínu. Flestir voru búnir að spá að þetta einvígi færi 3:0 fyrir Víkinga. Þegar öllu er síðan á botninn hvolft þá erum við hársbreidd frá því að vinna einvígið. Vorum með örlögin í höndum okkar á síðustu sekúndum. Niðurstaðan er ótrúlega súr en við lærum af henni, bæði ég og strákarnir. Nú fer maður heim og fer yfir hvað má bæta og þess háttar,“ sagði Sverrir sem tók við þjálfun Fjölnis fyrir ári síðan.

Komum alltaf til baka

„Í þessu einvígi vorum við oft í þeirri stöðu að hafa tapað leikjum en náðum alltaf að koma til baka hvað eftir annað, síðast nokkrum sinnum í dag. Það er erfitt að spila á móti sterku liði eins og Víkingi, hvað eftir annað, og vera með leik í hvert skiptið. Ég þigg þá reynslu sem fékkst út úr þessu fyrir hönd liðsins. Ég er stoltur af strákunum, hvernig þeir hafa sinnt þessu og komið inn í leikina,“ sagði Sverrir Eyjólfsson þjálfari Fjölnis í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -