Handknattleikskonan Sunna Katrín Hreinsdóttir hefur ákveðið að gang til liðs við meistaraflokk Víkings í handknattleik. Sunna, sem er 20 ára, kemur til félagsins frá KA/Þór þar sem hún hefur spilað allan sinn feril.
„Sunna er kraftmikill rétthentur hornamaður og er einnig sterkur varnarmaður sem kemur til með að styrkja liðið til muna,“ segir í tilkynningu frá Víkingi en liðið hefur fengið nokkra leikmenn til sín í sumar og virðist ætla að gera atlögu að toppsætum Grill 66-deildar á komandi leiktíð.
„Ég er mjög spennt fyrir því að koma inn í metnaðarfullt lið sem ætlar sér stóra hluti og fá að prófa mig áfram. Hópurinn leggst vel í mig og ég er ekkert nema jákvæð fyrir komandi tímabili,“ er haft eftir Sunnu Katrínu í tilkynningu Víkings.