Teitur Örn Einarsson og félagar í Flensburg eru öruggir um sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik eftir að þeir lögðu serbnesku meistarana Vojvodina, 42:30, í Flens-Arena í Flensburg í kvöld. Flensburg á efsta sæti riðilsins næsta víst og þar með sæti í átta liða úrslitum. Teitur Örn skoraði fjögur mörk í fimm skotum fyrir Flensburg.
Lokaumferð riðlakeppni 16-liða úrslita fer fram eftir viku. Þá sækir Flensburg danska liðið Bjerringbro/Silkeborg heim. Mikið þarf að ganga á í leiknum til þess að danska liðið taki efsta sæti af Flensburg sem vann fyrri viðureign liðanna með 10 marka mun.
Skoraði tug marka
Bjerringbro/Silkeborg lagði Óðinn Þór Ríkharðsson og liðsmenn Kadetten Schaffhausen, 34:33, í Schaffhausen í Sviss í kvöld og er þar með öruggt um annað sætið í riðlinum.
Bjerringbro/Silkeborg hefur unnið báða leiki liðanna auk þess að vera tveimur stigum á undan. Óðinn Þór átti stórleik að þessu sinni, skoraði 10 mörk.
Kadetten var tveimur mörkum undir í hálfleik, 19:17.
Tryggvi Þórisson var í liði Sävehof sem vann Skjern, 34:33, á Jótlandi í síðari viðureign liðanna. Sävehof steig mikilvægt skref í átt að sæti í útsláttarkeppni sem tekur við að riðlakeppninni lokinni eftir viku.
Annað og þriðja sætið í krossspil
Liðin sem hafna í öðru og þriðja sæti mætast heima og heiman. Sem dæmi má nefna er að liðið sem verður í öðru sæti í riðli eitt mætir liðinu sem verður í þriðja sæti í riðli tvö.
Samanlagður sigurvegari fer í átta liða úrslit ásamt efstu liðunum úr riðlunum fjórum.
Úrslit leikja kvöldsins og staðan í riðlunum: