„Þetta var alvöru leikur,” sagði Jón Bjarni Ólafsson hinn sterki línumaður FH sposkur á svip þegar handbolti.is rakst á kappann í gærkvöld á göngum Kaplakrika eftir að FH vann Aftureldingu, 27:26, í þriðja úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Símon Michael Guðjónsson skoraði sigurmarkið þremur sekúndum fyrir leikslok. Allt ætlaði um kolla keyra í fögnuðu FH-inga utan vallar sem innan. Fimm sekúndum áður hafði Jakob Aronsson jafnað metin fyrir Aftureldingu, 26:26.
Sjá einnig: Myndskeið: Ótrúlegar lokasekúndur í Kaplakrika
Brunaði fram eins og raketta
„Hlutirnir gerðust svo hratt undir lokin að erfitt var að átta sig á þessu. Ég bara man að Símon brunaði fram eins og raketta og skoraði sigurmarkið. Það var stórkostlegt. Við vorum heppnir að fá átta sekúndur til þess að reyna að skora sigurmarkið eftir að Afturelding jafnaði. Annars veit ég varla hvað maður á að segja,“ bætti Jón Bjarni við og var greinilega í geðshræringu eftir lokakaflann og þau skipti skins og skúra sem áttu sér stað.
Skerptum á nokkrum atriðum
FH-ingar voru þremur mörkum undir eftir fyrri hálfleik, 15:12. Þeir voru hinsvegar fljótir að jafna metin og komast marki yfir með því að skora fyrstu fjögur mörk síðari hálfleiks. „Við þurftum svo sannarlega að bæta okkur í síðari hálfleik. Við fórum bara vel yfir okkar leik og skerptum á þeim atriðum sem okkur fannst vanta upp á. Fyrir vikið komum við dýrvitlausir inn í síðari hálfleik og náðum fjögur núll kafla, stúkan var með okkur, við fengum byr í seglin. Þá var ekki að sökum að spyrja,“ sagði Jón Bjarni sem skoraði fjögur mörk af línunni.
Viljum klára á miðvikudaginn
Fjórði úrslitaleikur FH og Aftureldingar fer fram að Varmá á miðvikudagskvöld. Með sigri í þeim leik verður FH Íslandsmeistari. Vinni Afturelding verður oddaleikur í Kaplakrika á sunnudaginn. Jón Bjarni segir ekki annað koma til greina en að leggja allt í sölurnar á miðvikudagskvöld og ljúka verkefninu. Vonast hann til að sjá sem flesta FH-inga á leiknum.
„Við ætlum að sækja titilinn og taka með okkur Íslandsbikarinn heim í Krikann. Ég er viss um að auðvelt verður að stilla sig inn á þann leik. Við ætlum að vinna enda förum við í hvern og einn leik með það að markmiði,” sagði Jón Bjarni Ólafsson línumaður FH í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í gærkvöld.
Sjá einnig: Dramatík í Kaplakrika – Sigurmark á síðustu sekúndu