„Handbolti er þjóðaríþrótt okkar Íslendinga og við erum með ótrúlega gott lið um þessar mundir svo það er eðlilegt að væntingar ríki. Það má alveg vera gaman,“ sagði Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann að máli í vikunni áður en íslenska landsliðið fór til Þýskalands þar sem það leikur gegn þýska landsliðinu í tvígang áður en haldið verður á HM í Þýskalandi.
Of mikið?
„Það er bara mjög gaman að væntingar ríki hjá fleirum en okkur leikmönnum fyrir þessu móti. Hvort væntingarnar séu of miklar ætla ég ekki að fella dóm um,“ sagði Elliði Snær yfirvegaður en margir gera sér góðar vonir um að Elliði Snær og félagar nái langt á heimsmeistaramótinu sem stendur fyrir dyrum eftir nærri vikutíma.
Raskar ekki ró okkar
„Fyrst og síðast er gaman að umfjöllun hafi aukist um handbolta hér heima. Skoðanir fólks raska ekki ró okkar í hópnum. Reynslan er alltaf að vaxa innan okkar raða. Þetta er svo sannarlega ekki í fyrsta skipti sem gerðar eru væntingar til landsins,“ sagði Elliði Snær pollrólegur þar sem hann lá á bekknum hjá Jóni Birgi Guðmundssyni sjúkraþjálfara landsliðsins eftir æfingu meðan rabbað var við handbolta.is.
Leikir við þýska landsliðið 7. og 8. janúar: Laugardagur kl. 15.15 - Þýskaland - Ísland. Sunnudagur kl. 14.30 - Þýskaland - Ísland. Fyrri viðureignin fer fram í Bremen, sú síðari í Hannover. RÚV sýnir báða leiki.
Kærkominn mælikvarði
Elliði Snær segir leikina við Þjóðverja um helgina vera kærkomna gegn sterku liði. Þeir verði mælikvarði á hvar íslenska liðið stendur þegar skammt er til fyrsta leiks á HM.
Undirbúningstíminn er skammur og mikilvægt að halda vel á spilunum.
„Þjóðverjar eru með frábæra einstaklinga og afar gott lið sem hefur verið í uppbyggingu síðustu árin. Fyrir vikið verður gaman að sjá hvar þeir standa í samanburði við okkur og fást við mjög gott lið í tveimur leikjum svona rétt fyrir heimsmeistaramótið,“ sagði Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Gummersbach í snörpu samtali við handbolta.is.
Elliði Snær á topp tíu lista línumanna í Þýskalandi
Leikir á HM 2022 - D-riðill (Kristianstad) 12. janúar: Ungverjaland – Suður Kórea, kl. 17. Ísland – Portúgal, kl. 19.30. 14. janúar: Portúgal – Suður Kórea, kl. 17. Ísland – Ungverjaland, kl. 19.30. 16. janúar: Suður Kórea – Ísland, kl. 17. Portúgal – Ungverjaland, kl. 19.30.
Leikjadagskrá HM – smellið hér.