„Sigurinn réðist á sterkum liðsanda, varnarleik og markvörslu þegar vörnin fór að smella eftir um 10 til 12 mínútur auk Katrine Lunde í markinu,“ segir Þórir Hergeirsson þjálfari nýkrýndra Ólympíumeistara Noregs í samtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson fréttamann RÚV eftir norska landsliðið vann franska landsliðið með átta marka mun, 29:21, í úrslitaleik í Lille í dag. Þetta var í annað sinn sem Þórir stýrir norska landsliðinu til sigurs á Ólympíuleikum og í fyrsta skipti í 12 ár en 2016 og 2021 hreppti norska landsliðið bronsverðlaun.
Leystum margt betur
„Svo fannst mér við leysa margt í sóknarleiknum mjög vel sem við höfum stundum verið í vandræðum með gegn Frökkum. Við lékum mjög agað í gegnum allan leikinn,“ segir Þórir ennfremur og bætti við að mikið hungur hafi verið í hópnum eftir tvenn bronsverðlaun í röð. Aðeins tvær í hópnum, fyrrgreind Lunde og Camilla Herrem höfðu unnið gull á Ólympíuleikum 2012. Flestar aðrar hafa unnið gull á öllum öðrum mótum en Ólympíuleikum.
Undir stjórn Þóris Hergeirssonar hefur norska kvennalandsliðið unnið tíu gullverðlaun á stórmótum. Enginn landsliðsþjálfari hefur oftar stýrt landsliði sínu til sigurs á stórmóti í handknattleik. Þrisvar hafa silfurverðlaun komið í hlut Þóris og norska landsliðsins á stórmótum frá 2009 þegar hann tók við af Marit Breivik, síðast á HM í desember 2023. Bronsverðlaunin eru einnig þrjú á 15 árum. Þórir varð sextugur 27. apríl sl.
Unnið í andlega þættinum
„Það sem brýtur þig ekki gerir þig sterkari. Þessar stelpur hafa unnið mikið í andlega þættinum síðustu árin. Hvernig við nálgumst verkefnið. Væntingarnar eru miklar til liðsins. Við eigum að vinna 99 af hverjum 100 leikjum sem við tökum þátt í á öllum mótum.
Sterk löngun
Þegar löngunin er sterk til að vinna Ólympíugull er ýmislegt sem þarf að takast á við á þeirri leið. Mér fannst okkur takast vel til núna með þessa þætti,“ segir Þórir sem á samning við norska handknattleikssambandið út þetta ár. Hann segist ætla að koma heim til Íslands áður en hann tekur næsta skref, að skrifa undir nýjan samning sem honum stendur til boða.
Næsti áfangastaður: Veiðivötn
„Nú ætla ég að fara heim til Íslands og inn í Veiðivötn með fjölskyldu og góðum vinum. Svo ætla ég bara að hugsa málið. Svo fundum við í lok ágúst og þá kemur það í ljós,“ segir Þórir Hergeirsson þjálfari Ólympíumeistara Noregs í handknattleik kvenna í samtali við RÚV.
Norska landsliðið tapaði fyrsta leiknum á ÓL en vann sjö þá næstu.
Allt viðtal RÚV við Þóri er að finna hér.
ÓL: Þórir og norska landsliðið eru Ólympíumeistarar
ÓL: Hin einstaka Lunde valin sú besta
ÓL24: handbolti kvenna, leikir, úrslit, staðan
ÓL: Fer norska landsliðið sömu leið og í London 2012?