Handknattleiksmaðurinn Þorleifur Rafn Aðalsteinsson er á ný mættur í Fjölnisbúninginn eftir eins árs veru hjá Víkingi. Fjölnir tilkynnti um komu Þorleifs Rafns seint í gærkvöld. Hann tekur slaginn með Fjölni í Olísdeildinni á næstu leiktíð en hann lék með Víkingi í deildinni á síðasta tímabili auk þess að hafa leikið með Fjölni áður í efstu deild.
Þorleifur er 24 ára hægri handar skytta sem getur leyst flestar stöður á vellinum en hann lék upp öll yngri landslið Íslands. Hann hefur leikið 84 leiki fyrir meistaraflokk Fjölnis og skoraði 209 mörk.
Fjölnismenn hafa verið duglegir upp á síðkastið að semja við leikmenn sína eða að öngla í fyrrverandi leikmenn félagsins. Gunnar Steinn Jónsson þjálfar Fjölni á næstu leiktíð. Hann tók við af Sverri Eyjólfssyni. Sverrir ákvað að hætta eftir að hafa stýrt liðinu upp úr Grill66-deildinni í vor eftir æsispennandi rimmu við Þór í umspili Olísdeildar.
Sjá einnig:
Sigurður ætlar að verja mark Fjölnis
Haraldur Björn tekur slaginn með Fjölni – Aron Breki framlengdi
Kominn heim í Fjölni eftir tveggja ára vist hjá Stjörnunni
Gunnar Steinn ráðinn þjálfari Fjölnis
Nýliðarnir semja við Alex til tveggja ára
Karlar – helstu félagaskipti 2024