Handknattleiksmennirnir Aron Hólm Kristjánsson og Brynjar Hólm Grétarsson hafa framlengt samninga við handknattleiksdeild Þórs um tvö ár. Báðir eru þeir uppaldir Þórsarar og Aron Hólm hefur ekki leikið með öðru liði. Brynjar Hólm kom aftur til félagsins fyrir ári eftir dvöl hjá Stjörnunni.
Aron Hólm og Brynjar Hólm voru í stórum hlutverkum hjá Þór á síðasta keppnistímabili þegar liðið tapaði naumlega fyrir Fjölni í umspili um sæti í Olísdeildinni.
Á síðustu vikum hafa fleiri leikmenn Þórs skrifað undir nýja samninga s.s. Arnór Þorri Þorsteinsson, Kristján Páll Steinsson og Steinar Ingi Árnason markverðir. Til viðbótar hafa Hafþór Már Vignsson og Oddur Gretarsson samið við Þór. Báðir eru Þórsarar að upplagi. Oddur hefur verið í rúman áratug í atvinnumennsku í Þýskalandi og Hafþór Már var síðast í Noregi.
Ljóst er að Þórsarar koma tvíefldir til leiks í Grill 66-deildinni í haust.