FH-ingar standa höllum fæti eftir jafntefli á heimavelli í kvöld, 34:34, í Kaplakrika í fyrri viðureigninni við RK Partizan frá Serbíu í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla. Uros Kojadinovic jafnaði metin fyrir RK Partizan þegar fimm sekúndur voru til leiksloka. Gestirnir skoruðu þrjú síðustu mörkin. FH var þremur mörkum yfir, 34:31, þegar hálf þriðja mínúta var til leiksloka.
Hætt er við að á brattann verði að sækja fyrir FH-inga í síðari leiknum sem fram fer í Belgrad eftir viku í ljósi úrslitanna í kvöld.
Staðan var jöfn í hálfleik, 15:15.
FH-ingar voru öflugri lengi vel í síðari hálfleik og höfðu tveggja og jafnvel þriggja marka forskot en lánaðist ekki að halda fengnum hlut gegn sterku serbnesku liði.
Fyrrnefndur Uros Kojadinovic skoraði 13 mörk fyrir Partizan og reyndist FH-ingum erfiður.
Aron Pálmarsson lék með FH á nýja leik. Hann skoraði þrjú mörk úr sex skotum.
Mörk FH: Jóhannes Berg Andrason 9, Jón Bjarni Ólafsson 6, Einar Bragi Aðalsteinsson 5, Ásbjörn Friðriksson 4, Símon Michael Guðjónsson 4, Aron Pálmarsson 3, Birgir Már Birgisson 1, Leonharð Þorgeir Harðarson 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 14, 29,7%.