- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tímabilið að baki er mikill sigur fyrir mig

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Evrópumeistara SC Magdeburg. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þegar á heildina er litið, aftur til síðustu 10 mánaða þá var keppnistímabilið frábært hjá Gísla Þorgeiri Kristjánssyni þrátt fyrir axlarmeiðslin alvarlegu í undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar um síðustu helgi. Hann náði að leika allt keppnistímabilið, 31 af 34 leikjum Magdeburg í þýsku 1. deildinni, og missti aðeins af hálfum öðrum leik í Meistaradeildinni.

Gísli Þorgeir meiddist á ökkla snemma í fyrri viðureigninni við Wisla Plock í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og varð svo að hvíla í síðari viðureigninni vegna ökklameiðslanna. Til viðbótar lék Gísli alla leiki Magdeburg í heimsmeistarakeppni félagsliða og í bikarkeppninni og 12 viðureignir íslenska landsliðsins á keppnistímabilinu.

Fyrsta heila tímabilið

Segja má að tímabilið sem er að baki sé það fyrsta heila sem Gísli Þorgeir nær svo árum skiptir. Uppskeran er sigur í Meistaradeild Evrópu, sigur í heimsmeistarakeppni félagsliða, silfur í þýsku deildinni og í bikarkeppninni til viðbótar við að vera kjörinn leikmaður ársins í Þýskalandi og mikilvægasti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar.

Gísli Þorgeir fyrir miðri mynd með verðlaungrip Meistaradeildarinnar. Mynd/EPA

Mikill sigur fyrir mig

„Ég missti af fjórum leikjum allt tímabilið. Það er mikill sigur fyrir mig þótt visslega sé ljóst að ég mun missa af mörgum leikjum framan af næsta keppnistímabili vegna axlarmeiðslanna,“ sagði Gísli Þorgeir í samtali við handbolta.is í nýliðinni viku.

„Hinsvegar stend ég í allt öðrum sporum í dag en í öll hin skiptin sem ég hef meiðst á síðustu árum. Ég fór sannarlega úr axlarlið í undanúrslitaleiknum en ég fékk Evrópumeistaratitil á móti. Stærsta titilinn í félaga handboltanum. Auðvitað er mjög súrt að verða fyrir þessum meiðslum í enn eitt skiptið. Um er að ræða skot öxlina.

Ég hef náð ákveðnum árangri, einu heilu frábæru keppnistímabili með stórkostlegum íþróttalegum enda. Það er magnað að fá tækifæri til þess að skrifa söguna og verða hluti af henni. Nú get ég þó litið til baka þegar fram líða stundir og vitað hvað ég hef tekið þátt í að vinna, bæði sem einstaklingur og með félagi mínum,“ sagði Gísli Þorgeir og bætti við að þótt einstaklingsverðlaunin væri kærkomin þá væri sigur liðsheildarinnar í Meistaradeildinni það sem mestu máli skipti.

Stendur upp úr

„Auðvitað er ég þakklátur fyrir einstaklingsverðlaunin, bæði í Þýskalandi og um Meistaradeildarhelgina. Hins vegar stendur upp úr sigur okkar sem liðs í Meistaradeildinni. Við vorum svo grátlega nærri öllum titlum, í öðru sæti í deildinni og í bikarkeppninni í Þýskalandi. Sigurinn í Meistaradeildinni bætir allt upp.“

Líður vel í Magdeburg

Gísli Þorgeir framlengdi í vetur samning sinn við SC Magdeburg til næstu fimm ára. Hann er samningsbundinn liðinu til ársins 2028.

„Mér líður mjög vel í Magdeburg og af hverju ætti ég þá að vilja skipta. Félagið hefur staðið við bakið á mér en ég hef líka borgað til baka. Ég er spenntur fyrir að taka á móti framtíðinni og því sem hún ber í skauti sér,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is í vikunni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -