Þegar aðeins er litið til fjölda varinna skota en ekki til hlutfalls varinna skota og markafjölda þá eru tveir íslenskir markverðir á lista yfir þá 20 markverði í þýsku 2. deildinni sem náðu að verja flest skot allra á nýliðinni leiktíð.
Aron Rafn Eðvarðsson, sem væntanlegur er til liðs við Hauka í sumar, er í sjötta sæti með 301 varið skot af 780 í 35 leikjum fyrir Bietigheim. Þetta jafngildir 27,8% hlutfallsmarkvörslu.
Sveinbjörn Pétursson, markvörður EHV Aue, situr í 14. sæti á fyrrgreindum 20 manna lista yfir þá sem vörðu flest skot á keppnistímabilinu. Sveinbjörn varði 220 skot af 505 sem á mark hans bárust á hans vakt. Það jafngildir 30,03% hlutfallsmarkvörslu.
Matthias Puhle, markvörður Gummersbach og liðsfélagi Elliða Snæs Viðarssonar, varði flest skot allra markvarða deildarinnar, 372 af 690, sem gerir 35,03% hlutfallsmarkvörslu.
Ef eingöngu er lítið til hlutfalls varinna skota á móti mörkum er Robert Tschuri, markvörður Rimpar, efstur. Hann varði þrjú skot af þeim sjö sem hann fékk á sig í leikjum keppnistímabilsins sem lauk fyrir rúmri viku.