- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Um 100 krakkar tóku þátt í hæfileikamótun HSÍ

Saga Sif Gísladóttir, Magnús Hallsson, Jón Gunnlaugur Viggósson, Jörgen Freyr Ólafsson, Jovan Kukobat, Ágúst Lárusson og Friðrik Benóný Garðarsson voru leiðbeinendur. Jón Gunnlaugur er umsjónarmaður hæfileikamótunnar HSÍ. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Um 100 leikmenn frá 19 félögum voru boðaðir á æfingar að þessu sinni. Hæfileikamótun HSÍ er undanfari unglingalandsliða Íslands og því stór áfangi fyrir leikmenn að fá boð á æfingar sem þessar. Hæfileikamótun HSÍ er haldin yfir fjórar helgar á hverju tímabili og endar með æfingahelgi á Laugarvatni þar sem eiginlegt unglingalandslið er mótað.

Þátttakendur í hæfileikamótun HSÍ í Kaplakrika síðustu helgina í febrúar. Framtíðin í kvennahandknattleiknum hér á landi. Mynd/HSÍ

Á fyrstu æfingahelgi Hæfileikamótunar HSÍ tilnefna félögin þá leikmenn sem þau telja að skarað hafa fram úr. Sú æfingahelgi var í nóvember og var áhersla lögð á að skoða hvern leikmann fyrir sig. Þannig var farið í bæði skottækni, skotnýtingu og HSÍ-skalann sem er hraðaþraut þar sem leikmenn þurfa að hlaupa ákveðna braut og um leið senda/skjóta á ákveðin skotmörk.

Á nýliðinni æfingahelgi, þar sem val leikmanna er í höndum landsliðsþjálfara, var sett upp hraðmótafyrirkomulag ásamt því að farið var yfir ákveðnar áherslur í vörn og sókn sem þjálfarar vildu sjá leikmenn framkvæma. Áhersla var því lögð á að sjá leikmenn spila með þeim bestu í þessum aldursflokki, samskipti, líkamstjáningu og tæknilega getu.

Þátttakendur í hæfileikamótun HSÍ í Kaplakrika síðustu helgina í febrúar. Allir komu reynslunni ríkari heim eftir æfingarnar. Mynd/HSÍ

Næstu æfingahelgar hjá Hæfileikamótun HSÍ eru svo 13.-15.maí þar sem fækkað verður í hópnum frá nýliðinni æfingahelgi og að lokum verður svo æfingaferð á Laugarvatn þar sem 25 strákar og 25 stelpur munu fá boð um að mæta í. Á þeim æfingahelgum er áhersla lögð á tæknileg atriði, samspil tveggja eða fleiri leikmanna ásamt því að ítarlega er farið í varnar- og sóknarleik.

Markmið Hæfileikamótunar HSÍ er að kynna og efla þá liðsheild sem íslenska landsliðið stendur fyrir, kynna fyrir leikmönnum æfingaumhverfi landsliða en kannski það mikilvægasta er að efla hugarfarið hjá leikmönnum og um leið aðstoða þau við að ná betri árangri. Við erum með framtíðarlandsliðsfólk í höndunum og því mikilvægt að efla okkar leikmenn, liðsanda og liðsheild.

2008 árgangurinn er afar öflugur árgangur bæði karla og kvennamegin, það eru því afar spennandi tímar framundan hjá þeim sem setja sér skýr markmið og leggja þá vinnu sem þarf til að skara framúr og komast alla leið í A-landsliðið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -