Valur vann sænska meistaraliðið Ystads IF HK með tveggja marka mun, 35:33, í Ystads í síðasta leik sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik. Valsmenn hafna þar með í þriðja sæti riðilsins, vantaði eitt mark upp á að ná öðru sæti. Liðið átti síðustu sóknina en sending í hægra hornið geigaði og þar með rann síðasti möguleikinn á marki út í sandinn.
Valur mætir þýska liðinu Göppingen í 16-liða úrslitum keppninnar, 21. og 28. mars. Fyrri viðureignin verður í Origohöllinni. Göppingen varð í öðru sæti A-riðils.
Valur lék stókostlega í fyrri hálfleik og var með átta marka forskot að honum loknum, 21:13. Mestur varð munurinn níu mörk í síðari hálfleik, 23:14, eftir liðlega 33 mínútur.
Til of mikils var mælst að Valur næði að leika annan eins leik í síðari hálfleik og í þeim fyrri. Forskotið rann jafnt og þétt úr höndum leikmanna Vals og Ystads komst yfir, 33:32. Gríðarlega barátta Valsmanna á síðustu mínútunum tryggði þeim sigur.
Svo er það bara spurningin hvort betra hefði verið að hafna í öðru sæti í riðlinum. Þeirri spurningu verður aldrei svarað.
Mörk Vals: Stiven Tobar Valencia 7, Magnús Óli Magnússon 7, Benedikt Gunnar Óskarsson 6, Arnór Snær Óskarsson 5, Aron Dagur Pálsson 3, Tjörvi Týr Gíslason 2, Finnur Ingi Stefánsson 1, Agnar Smári Jónsson 1, Vignir Stefánsson 1, Bergur Elí Rúnarsson 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, 30% – Motoki Sakai 1, 17%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.