„Varnarleikurinn okkar, sérstaklega í síðari hálfleik var alltof “soft”. Við mættum ekki skyttum ÍBV-liðsins eins og við áttum að gera. Hanna fékk að komast ótrufluð í loftið og síðan hrökk Birna í gang í síðari hálfleik,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Vals í samtali við handbolta.is í dag eftir tveggja marka tap Vals fyrir ÍBV í úrslitum Poweradebikars kvenna í handknattleik í Laugardalshöll, 31:29.
„Allt lagðist á eitt. Eyjaliðið hitti vel á markið, markvarslan lítil og varnarleikurinn slakur. Það er erfitt að eiga við ÍBV þegar varnarleikur okkar verður ekki betri en raun varð á í dag,“ sagði Ágúst Þór sem var óánægður með eitt og annað í sóknarleik síns liðs þótt það hafi skorað 29 mörk.
„Á fyrstu 10 mínútum leiksins fórum við illa með fjögur dauðafæri. Oft var skotið á fyrsta tempói. Sama gerðist þegar á leikinn leið. Mér fannst eins og það gætti kæruleysis í skotunum.
Uppstilltur sóknarleikur gekk samt nokkuð vel og skilaði okkur mörgum færum. Hinsvegar fengum við fá hraðaupphlaup sem gefur svo sem auga leið. Þau verða ekki til þegar varnarleikurinn var ekki betri en þetta,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Vals í snörpu samtali við handbolta.is í Laugardalshöll í dag.