„Tæpt var það en ég er ógeðslega ánægð með úrslitin. Handboltinn var kannski ekki sá fallegasti en við börðumst eins og ljón allan tímann. Stundum þarf ekki að leika fallegasta handboltann til þess að fá stigin. Þau skipta mestu þegar upp er staðið,“ sagði Arna Valgerður Erlingsdóttir þjálfari KA/Þórs skiljanlega eldhress eftir sigur á Fram, 22:21, í Olísdeild kvenna í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld. Sigurinn stóð tæpt því boltinn var dæmdur af KA/Þór þegar skammt var eftir og Fram átti þess kost að jafna metin. Það tókst ekki og leikmenn KA/Þórs fara syngjandi kátir heim til Akureyrar.
Þetta var annar sigur KA/Þórs í röð og sá þriðji ef sigur í Poweradebikarnum um miðja viku er talinn með. Akureyrarliðið er þar með komið upp í sjötta sæti deildarinanr þegar þriðjungur deildarkeppninnar er að baki.
Brotnuðum ekki núna
Upphafskaflinn var erfiður fyrir KA/Þór. Fram byrjaði með látum og komst yfir, 7:2. KA/Þórsliðið brotnaði ekki við mótlætið í upphafi og jafnaði metin, 9:9, og gaf ekki þumlung eftir það sem eftir var.
„Við brotnuðum í þessari stöðu hér í Úlfarsárdal í fyrra en nú var annað upp á teningnum. Ég þurfti bara aðeins að minna stelpurnar á við þyrftum að berjast allan tímann og vinna sem ein heild. Okkur tókst að kveikja á þeim, sem betur fer,“ sagði Arna Valgerður sem hældi markverðinum reynda, Mateu Lona, mikið en hún hefur átt stóran þátt í að snúa gengi KA/Þórsliðsins við með hverjum stórleiknum á fætur öðrum, síðast í dag.
„Þegar við komust í vörn þá getum við leikið mjög góða vörn og þá er traust að hafa Mateu fyrir aftan,. Við verðum hinsvegar oft að vanda betur hvernig við ljúkum okkar sóknum svo við komumst í vörnina til að verjast,“ sagði Arna Valgerður.
Nú var gæfan með okkur
Undir lokin þá var KA/Þórsliðið oftar en ekki manni færra og jafnvel tveimur mönnum færri á tímabili. Arna Valgerður viðurkennir að það hafi farið um hana í þeirri stöðu en sem betur fer hafi liðinu tekist að halda sjó og missa Fram aldrei framúr.
„Heppnin var kannski aðeins með okkur í liði að þessu sinni. En við erum ánægðar með að fá einn leik þar sem eitthvað fellur með okkur. Því miður hefur gæfan ekki alltaf verið okkur í liði. Það er dásamlegt að fá einu sinni að njóta hennar,“ sagði Arna Valgerður.
Bætum okkur jafnt og þétt
Stígandi hefur verið í leik KA/Þórs frá fyrstu umferð. Það var viðbúið að sögn Örnu Valgerðar. Margir ungir leikmenn eru í burðarhlutverkum auk þess sem nýir liðsmenn hafa verið að bætast í hópinn. Sinn tíma tekur að ná öllum saman.
„Það sem skiptir mestu máli er að við erum að bæta okkur jafnt og þétt eftir því sem leikjunum fjölgar. Ég er að læra eins og leikmennirnir. Mér finnst ganga vel hjá mér og liðinu. Andinn innan hópsins er góður sem er fyrir öllu þegar unnið er saman,“ sagði Arna Valgerður Erlingsdóttir þjálfari KA/Þórs í samtali við handbolta.is eftir sigurinn á Fram í Úlfarsárdal í kvöld.