Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður fékk frí í gær þegar lið hans ORLEN Wisla Plock mætti Azoty Puławy í 19. umferð pólsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik á útivelli. Wisla Plock vann leikinn með 14 marka mun, 34:20. Liðið er í efsta sæti pólsku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga eftir 19. umferðir.
Janus Daði Smárason og liðsfélagar í OTP Bank-PICK Szeged halda áfram kapphlaupinu við Vespzrém um deildarmeistaratitilinn í Ungverjalandi. Í gær vann Pick Szeged liðsmenn Dabas, 35:27, á heimavelli.
Janus Daði skoraði þrjú mörk í þremur skotum á rúmlega 32 mínútum sem hann tók þátt í leiknum. Stoðsendingar voru ekki skráðar niður í tölfræðinni sem handbolti.is gróf upp á heimasíðu ungverska handknattleikssambandsins.
Pick Szeged er í efsta sæti ungversku 1. deildarinnar með 28 stig eftir 15 leiki, tveimur stigum á undan Veszprém sem á leik inni gegn Balatonfüredi síðdegis í dag.
Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.