Jón Halldórsson formaður HSÍ vildi ekkert láta eftir sér hafa þegar handbolti.is hafði samband við hann til þess að spyrja út í ummæli Gísla Freys Valdórssonar formanns handknattleiksdeildar Fram í viðtali við handkastid.net í dag þess efnir að það mæti andstöðu innan HSÍ að Arnar Pétursson verði áfram í þjálfaratreymi kvennaliðs Fram samhliða þjálfun kvennalandsliðsins.
Arnar virðist ekki vera með Fram í æfingabúðum á Tenerife ef marka má mynd á Facebook-síðu ferðaskrifstofunnar Tíu þúsund fet sem hefur veg og vanda af skipulagningu æfingabúða Fram og fleiri liða á eyjunni undanfarnar vikur.
Fékk leyfi í fyrra
Fjarvera Arnars hefur vakið upp spurningar um hvort hann væri hættur hjá Fram. Arnar var aðstoðarþjálfari Fram á síðustu leiktíð og fékk til þess að leyfi frá þáverandi stjórn HSÍ. Þáverandi formaður HSÍ, Guðmundur B. Ólafsson, sagði það leyfi ekki hafa verið auðsótt.

Þegar Haraldur Þorvarðarson tók við þjálfun Fram í sumar af Rakel Dögg Bragadóttur bárust ekki tíðindi um að breyting yrði á hlutverki Arnars í þjálfaratreyminu.
Framarar meta framhaldið
Gísli Freyr segir við Handkastið að til hafi staðið að Arnar yrði áfram í þjálfarateymi kvennaliðs Fram á komandi leiktíð. Það eitt og sér nægir ekki.
„Það hefur hins vegar, líkt og í fyrra, mætt andstöðu innan HSÍ. Við erum því að meta framhaldið í málinu,“ sagði Gísli í samtali við Handkastið.
Sem fyrr segir baðst Jón formaður HSÍ undan að tjá sig um málið þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í dag.