„Það er alltaf gaman að vinna þessa leiki. Tilfinningin er góð en það er eins og mig minnir að leikir okkar við Hauka hafi oft endað með jafntefli á síðustu árum. Í ljósi þess er enn betra að vinna núna,“ sagði Ásbjörn Friðriksson hinn leikreyndi leikmaður FH og aðstoðarþjálfari í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir sigur FH á Haukum í fyrra uppgjöri Hafnarfjarðarliðanna í Olísdeild karla sem fram fór á Ásvöllum, 32:29.
„Mér fannst við vera betri lengst af leiksins. Það var stál í stál fyrstu tuttugu mínúturnar. Eftir það tókst okkur að bæta varnarleikinn. Við vorum aldrei í vandræðum með að skora, frá upphafi til enda. Mér fannst það frekar vera okkar klaufaskapur að hleypa Haukum óþarflega nálægt undir leikslok þótt aldrei væri veruleg hætta á að við misstum forskotið niður,“ sagði Ásbjörn ennfremur. Hann skoraði fjögur mörk að þessu sinni.
Vorum alltaf með tökin
„Maður varð aldrei rólegur í leiknum en mér fannst hinsvegar við alltaf vera með tök á leiknum. Sóknarleikurinn gekk mjög vel, varnarleikurinn hélt vel og Danni var öflugur í markinu. Þar af leiðandi fannst mér við alltaf vera með tökin og mikið þyrfti til þess að stríðsgæfan snerist okkur í óhag þegar við vorum komnir fjórum til fimm mörkum yfir.“
Mikil breidd og álaginu dreift
Ásbjörn sagði að FH-liðinu hafi borist frábær liðsauki í sumar með fleiri en einum leikmanna. Breiddin í leikmannahópnum væri þar af leiðandi góð og fínn taktur hafi náðst við að rótera liðinu, alltént meðan allir eru ómeiddir.
„Allir hafa hlutverk. Það skal viðurkennt að þetta er annað en að leika sextíu mínútur í leik en að sama skapi alveg ótrúlega gaman,“ sagði Ásbjörn Friðriksson leikmaður FH í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í gærkvöld.
Tengt efni:
Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.
FH-ingar voru einfalega betri að þessu sinni
Slökuðu aldrei á – héldu alltaf áfram að sækja
Myndskeið: Var tækifæri til þess að vinna
Myndskeið: Sterkt hjá okkur að fara heim með tvö stig
Árni Bragi skoraði 12 mörk nyrðra – Aron og Jón Bjarni léku á oddi alsins