„Við ákváðum að peppa okkur í gang. Það vantaði alla stemningu í okkur í fyrri hálfleik,“ sagði Hildur Björnsdóttir fyrirliði Vals eftir sigur liðsins á Haukum í annarri viðureign liðanna á Ásvöllum í kvöld, 29:22. Haukar áttu í fullu tré við Valsliðið í fyrri hálfleik. Eftir að leikmenn Vals komu eins og grenjandi ljón til leiks í síðari hálfleik koðnaði Haukaliðið niður.
„Við breyttum engu í leikskipulaginu. Stemningin var okkar. Um leið og við fórum að fagna og ná upp gleðinni. Upphafsmínútur í síðari hálfleik voru frábærar og Hafdís stórkostleg í markinu. Liðsheildin var frábær, gerist ekki betri,“ sagði Hildur sem var vongóð um að Valsliðinu takist að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í þriðja úrslitaleiknum á mánudaginn.
„Ef við leikum svona áfram þá er það líklegt. En maður veit aldrei hvað gerist í úrslitakeppninni,“ sagði Hildur Björnsdóttir fyrirliði Vals.
Lengra viðtal við Hildi er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Hafi maður ekki trú þá verður verkefnið erfitt