„Eftir góðan fyrri hálfleik þá lentum við 6:1 undir á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks. Það fór með leikinn. Þá fór sjálftraustið niður hjá okkur, bæði varnarlega og sóknarlega. Þá tapar maður fyrir eins góðu lið og Val,“ sagði Stefán Arnarson annar þjálfara Hauka eftir sjö marka tap liðsins fyrir Val í annarri viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna á Ásvöllum í kvöld, 29:22. Haukar voru marki yfir í hálfleik, 13:12.
Valur hefur þar með unnið tvo leiki en Haukar engan.
„Við fengum færin framan af síðari hálfleik en klúðruðum þeim. Þar með fór trúin á verkefnið. Hafi maður ekki trú þá verður verkefnið erfitt,“ sagði Stefán ennfremur.
„Fyrri hálfleikur gekk samkvæmt skipulaginu. Vinnusemin var mikil í vörninni en um leið og við fórum út úr skipulaginu þá fengum við á okkur ódýr mörk. Heilt yfir var Valur betri að þessu sinni,“ sagði Stefán og bætti við að hans lið hafi síður en svo lagt árar í bát.
„Við verðum að ná leik á mánudagskvöldið. Eins og ég sagði fyrir leikinn þá er með íþróttir eins og lífið. Dagarnir eru misgóðir. Stundum koma tveir þrír slæmir dagar. Þá er ekkert annað að en að brosa. Þá kemur góður dagur,“ sagði Stefán Arnarson annar þjálfara Hauka.
Lengra viðtal við Stefán er að finna á myndskeiði hér fyrir ofan.
Peppuðum okkur í gang í hálfleik