Færeyingar leika um bronsverðlaun á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða karla í handknattleik á sunnudaginn gegn Svíum. Aldrei hefur svo fámenn þjóð leikið um verðlaun á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða í handknattleik karla. Danmörk og Portúgal leik um gullverðlaunin. Portúgal vann Færeyjar eftir tvíframlengdan undanúrslitaleik, 38:37.
Færeyingar áttu möguleika á að jafna metin í lok síðari framlengingar þegar þeir fengu vítakast. Diogo Rema Marques markvörður Portúgals varði vítakast Ísak Vedelsbøl og koma þar með í veg fyrir að úrslit leiksins réðust í vítakeppni.
Danir unnu Svía, 40:37, í hinni viðureign undanúrslita í leik sem varð að framlengja einu sinni.
Færeyska liðið, sem unnið hefur hug og hjörtu margra á heimsmeistaramótinu, hélt jöfnum leik við Portúgal í kvöld. Hvað eftir annað tóku leikmenn portúgalska liðsins frumkvæðið en alltaf komu færeysku piltarnir til baka og tókst að herja út tvær framlengingar.
Þegar fimm mínútur voru eftir að síðari framlengingunni voru Portúgalar með tveggja marka forskot, 37:35. Færeyingar neituðu að leggja árar í bát. Þeir jöfnuðu metin, 37:37, en lentu undir aftur, 38:37. Þeim tókst að verjast undir lokin og Aleksandar Lacok markvörður varði skot þegar 25 sekúndur voru.
Færeyska liði hóf sókn og vann vítakast þegar ein sekúnda var eftir. Óli Mittún var þá stöðvaður harkalega svo að úr honum blæddi. Eftir nokkra rekistefnu fengu Færeyingar vítakast til að jafna metin og Portúgal missti mann af leikvelli með rautt spjald. Allt kom fyrir ekki. Marques sá til þess að Portúgal leikur til úrslita á HM 21 árs landsliða eins og á EM 20 ára landsliða fyrir ári.
Óli Mittún skoraði 11 mörk og átti 12 stoðsendingar í leiknum fyrir færeyska liðið. Vedelsbøl var næstur með sex mörk.
Viðureign Færeyinga og Svía um bronsverðlaunin á sunnudaginn hefst klukkan 15. Úrslitaleikur Dana og Portúgala verður klukkan 17.30.
HMU21-’25: Dagskrá og úrslit síðustu leikja mótsins