„Deildin hefur verið rekin með hagnaði síðustu tvö ár og reksturinn var mjög góður í fyrra þegar við skilum um 10 milljóna hagnaði. Deildin er nánast skuldlaus,“ segir í pistli sem Matthías Imsland, formaður handknattleikdeildar ÍR ritar á Facebook-síðu deildarinnar undir yfirskriftinni, Samstaða.
Pistillinn er m.a. skrifaður vegna aðalfundur handknattleiksdeildarinnar sem er framundan.
Aðeins eru tvö ár síðan að handknattleiksdeild ÍR stóð afar höllum fæti fjárhagslega, skuldir voru miklar og til stóð að draga lið úr keppni á Íslandsmótinu, þar á meðal meistaraflokk kvenna. Frá því var horfið eftir að bylgja óánægju reis og maður gekk undir mann að halda úti meistaraflokki kvenna eins og öðrum flokkum félagsins. Kröftugt fólk tók í stjórntaumana og hefur nú gjörbylt fjárhagsstöðu félagsins auk þess sem fjölgun hefur orðið á iðkendum þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn.
„Við höfum farið í það að lækka kostnað, afla tekna og í góðan rekstur og safna í sjóð til að mæta áföllum. Þetta hefur verið hægt vegna þess hve öflugur hópur ÍR inga hefur komið að starfinu og verið tilbúinn að leggja sig fram.
Verkefnin framundan eru stór og vonandi skemmtileg. Flutningur í nýtt og glæsilegt hús fyrir næsta tímabil og ljóst að öll aðstaða handboltans í ÍR verður framúrskarandi og með því besta sem gerist. Vonandi verða bæði meistaraflokkur kvenna og karla í efstu deild en í báðum liðum eru gríðarlega efnilegt framtíðarfólk,“ skrifar Matthías í pistli sínum.
Óskar Matthías óskar eftir að fá fleiri að starfi deildarinnar, í stjórn deildarinnar og í ráð þau sem stýra meistaraflokkum, eins barna og unglinga. „Hvet ég því alla ÍR inga að láta vita af sér í starfið, hvort sem það er bara til að taka þátt úr fjarlægð eða stíga meira inn í starfið,“ skrifar Matthías ennfremur.
Iðkendum hefur fjölgað jafn og þétt þrátt við kórónuveirufaraldurinn, ekki síst hefur hefur fjölgað í hópi yngri stúlkna sem æfa hjá ÍR.
„Við höfum lagt miklar áherslu á yngra flokka starfið, ráðið öflugan yfirþjálfara og ráðið þjálfara sem við teljum framúrskarandi. Sérstaklega höfum við hugað að yngstu flokkunum og munum halda því áfram. Það hefur fjölgað jafnt og þétt hjá okkur þrátt fyrir Covid og er gaman að segja frá því að mikill árangur hefur náðst í að fá ungar stúlkur til að æfa hjá okkur. Ég er sannfærður um að með okkar umgjörð og metnaði mun nást meiri árangur þegar Covid mun ekki vera að trufla lengur,“ skrifar Matthías Imsland, formaður handknattleikdeildar ÍR.
Pistil Matthías í heild má lesa hér fyrir neðan.