Matea Lonac, markvörður, var valin besti leikmaður KA/Þórs á keppnistímabilinu og Einar Rafn Eiðsson var valinn bestur hjá KA á lokahófi handknattleiksdeildar sem fram fór á dögunum og sagt er frá í máli og myndum á heimasíðu KA.
Í tilkynningunni kemur m.a. fram að hornamaðurinn Dagur Gautason sé á förum frá KA. Hyggist hann reyna fyrir sér utan landsteinanna á næsta keppnistímabili.
Dagur kom til KA á nýjan leik fyrir ári eftir tvö ár með Stjörnunni í Garðabæ. Ekki kemur fram hvert hugur Dags leitar.
Danska handknattleikskonan Ida Margrethe Hoberg sem gekk til liðs við KA/Þór um áramótin var valin efnilegasti leikmaður KA/Þórs.
Línumaðurinn öflugi, Jens Bragi Bergþórsson, var valinn efnilegastur í ungu og upprennandi liði KA.
Nokkrir kvaddir
Auk Dags voru Gauti Gunnarsson, Allan Norðberg og Nicholas Satchwell kvaddir með virktum í lokahófinu. Þeir sigla á vit nýrra ævintýra í sumar. Gauti fer á ný heim til Vestmannaeyja, Satchwell hefur samið við norska úrvalsdeildarliðið Viking TIF í Björgvin. Óljóst er ennþá úr hvorri Keflavíkinni Norðberg rær á næstu handknattleiksvertíð.
Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir og Haraldur Bolli Heimisson voru valin bestu liðsfélagarnir hjá kvennaliði KA/Þórs og karlaliði KA.
Einnig voru þjálfurunum Andra Snær Stefánsson og Jónatan Þór Magnússyni þökkuð störf sín fyrir KA/Þór og KA. Báðir hafa þeir látið af störfum. Jónatan tekur við þjálfun karlaliðs Skövde í sænsku úrvalsdeildinni í sumar. Andri Snær tekur í það minnsta hvíld frá þjálfun meistaraflokks eftir þrjú annasöm ár með KA/Þór.
Síðast en ekki síst var yfirtrommara félagsins, Jóni Arnari Jónssyni, þakkað fyrir ómetanlegt starf en hann er þekktur fyrir að halda ótrauður uppi dampi, jafnt í meðbyr sem mótbyr.