Gísli Þorgeir Kristjánsson tók í gær við viðurkenningum fyrir að vera valinn leikmaður ársins í þýska handknattleiknum á síðustu leiktíð. Hann var útnefndur leikmaður ársins í lok leiktíðar í vor. Vegna anna gafst ekki tími til þess að afhenda verðlaunin fyrr en í gær fyrir heimaleik SC Magdeburg gegn HSV Hamburg.
Goðsögn í sögu SC Magdeburg, Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands, afhenti Gísla Þorgeiri verðlaunagripina eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.
👍 Gisli Kristjansson 🇮🇸 de Magdebourg a reçu aujourd'hui son trophée de MVP de la saison passée en Bundesliga 🇩🇪 👊 pic.twitter.com/L2c38SU4cI
— HandNews (@HandNewsfr) September 10, 2023
Hylltu Íslendinginn
Að athöfninni lokinni risu áhorfendur úr sætum og hrópuðu nafn Gísla hvað eftir annað í takt við slátt á klöppur sínar. Alfreð og faðir Gísla Þorgeirs, Kristján Arason, léku ófáa landsleikina saman á níunda áratug síðustu aldar og voru m.a. saman í sigurliðinu á B-heimsmeistaramótinu í Frakklandi 1989.
Fórnfýsin gleymist ekki
Stuðningsmenn Magdeburg munu aldrei gleyma fórnfýsi Hafnfirðingsins unga þegar hann þrælaði sér í gegnum úrslitaleik Meistaradeildarinnar 18. júní, daginn eftir að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitaleiknum. Ekki nóg með það heldur var Gísli Þorgeir í kjölfarið valinn besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar.
Gísli Þorgeir er á batavegi eftir aðgerð sem hann gekkst undir í sumar á hægri öxl.
Tengt efni:
Ævintýri Gísla Þorgeirs fullkomnað – kom, sá og var sá besti
Gísli Þorgeir heiðraður með gullmerki FH
Gísli Þorgeir sá allra besti í þýskum handknattleik
Gísli Þorgeir er leikmaður tímabilsins í Magdeburg