Handknattleiksdómararnir Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson leggja land undir fót eftir helgina og leggja leið sína til Logrono á Spáni. Þar suður frá bíður þeirra það verkefni að dæma viðureign BM Logrono La Rioja og serbneska liðsins Vojovdina í F-riðli 4. umferðar Evrópudeildarinnar í handknattleik karla.
BM Logrono La Rioja er í þriðja sæti F-riðils með þrjú stig. Vojovdina er stigi fyrir ofan í fjórða sæti. Um er ræða síðari viðureign liðanna í riðlakeppninni. Spænska liðið vann fyrri viðureignina sem fram fór í Novi Sad í Serbíu, 25:24. Þess má til fróðleiks bæta við að Vojvodina vann Evrópubikarkeppnina í vor og er einnig ríkjandi meistari í karlaflokki í Serbíu.
Þetta verður annar leikur Svavars og Sigurðar í Evrópudeildinni á tímabilinu en þeir dæmdu viðureign Hannover-Burgdorf og Ystads HF í 1. umferð forkeppninnar í byrjun september. Þar að auki dæmdu Svavar og Sigurður leik í Evrópubikarkeppni karla í Finnlandi fyrr á tímabilinu til viðbótar við landsleik Bretlands og Finnlands í forkeppni HM í upphafi þessa mánaðar.
Evrópudeild karla ’23 – úrslit 3. umferðar – staðan
Eftirlit á Jótlandi
Svavar og Sigurður verða ekki þeir einu úr hópi íslenskra dómara og eftirlitsmanna sem verða á ferðinni í Evrópudeildinni í næstu viku.
Guðjón L. Sigurðsson verður eftirlitsmaður á viðureign Skjern og ABC de Braga í Skjern í Evrópudeild karla á þriðjudagskvöld.
Sama kvöld verður Kristján Halldórsson einnig við eftirlit í Silkeborg á Jótlandi, aðeins sunnar en Guðjón. Kristján sér um að allt fari fram eftir bókinni þegar Bjerringbro/Silkeborg og HC Alakaloid mætast í Evrópudeildinni.