- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stoltur yfir að komast áfram í átta liða úrslit

Guðlaugur Arnarsson t.h. Mynd/Þorgils G - Fjölnir handbolti
- Auglýsing -

„Við vissum að verkefnið væri erfitt gegn vel þjálfuðu Fjölnisliði. Einnig lékum við á fáum mönnum að þessu sinni. Mér fannst við klára þetta vel því við fengum á okkur nokkur áhlaup sem við náðum að verjast vel. Heilt yfir fannst mér við hafa stjórn á leiknum og gera það sem þurfti til þess að vinna,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari karlaliðs KA við handbolta.is í gærkvöld eftir að lið hans lagði Fjölni, 27:23, í 16-liða úrslitum Poweradebikarkeppni karla í Fjölnishöllinni.

Vissum að þeir bitu frá sér

Halldór Stefán sagðist hafa búið sig undir leikinn á sama hátt og fyrir aðra leiki liðsins. „Við vissum að þetta yrði hörkuleikur. Fjölnismenn voru að mæta til leiks í fyrsta sinn eftir vont tap á móti Fram U um síðustu helgi. Af þeim sökum var ljóst að þeir myndu bíta fast frá sér og þeir reyndu það,“ sagði Halldór Stefán.

„Við spiluðum okkur oft í mjög góð færi í leiknum sem við klikkuðum á. Ef við hefðum verið beittari í og nýtt færin betur þá hefði munurinn verið meiri þegar upp var staðið,“ sagði Halldór Stefán.

Einar Rafn Eiðsson og Dagur Árni Heimisson, leikmenn KA sækja að vörn Fjölnis. Mynd/Þorgils G – Fjölnir handbolti

Þriðja flokks menn í burðarhlutverkum

„Það voru margir þriðja flokks menn í burðarhlutverkum í kvöld. Þeir stóðu sig vel. Ég er mjög stoltur af því að komast áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar. Það hefðu einhver lið getað lent út af sporinu hér gegn Fjölnisliðinu sem er mjög flott og vel samæft,“ sagði Halldór Stefán ennfremur.

Reynslumenn fjarverandi

Hvorki Ólafur Gústafsson né Ragnar Snær Njálsson léku með KA að þessu sinni. Fyrir vikið fengu yngri leikmenn stór hlutverk í vörninni, stærra en þeir hafa oft verið með.

Hörð umræða um ungu mennina

„Mér finnst umræðan um ungu mennina í mínu liði vera harðari en um unga leikmenn í öðrum liðum. Ég nefni sem dæmi hvernig rætt er um Skarpa [Skarphéðinn Ívar Einarsson]. Það er talað um hann eins og hann hafi leikið í Olísdeildinni í tíu ár. Skarpi er ennþá í þriðja flokki. Hann á góða leiki og lakari inn á milli eins og flestir aðrir menn á hans aldri. Mér fannst hann taka mjög flott skref í dag og stýra sex núll vörninni mjög vel með Degi [Dagur Árni Heimisson]. Okkur tókst að stilla upp mjög góðri vörn með tvo unga menn í hjarta hennar sem er frábært,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA sem kominn er með sveit sína í átta liða úrslit Poweardebikarkeppninnar.

Átta liða úrslit Poweradebikarkeppninnar fara fram í fyrri hluta febrúar. Næsti leikur karlaliðs KA í Olísdeildinni verður hinsvegar á þriðjudaginn gegn Val í Origohöllinni.

Tengt efni:

Þrjú lið kræktu í sæti átta liða úrslitum

Vorum inni í leiknum allt til loka

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -