- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Myndskeið: Orri Freyr og Teitur Örn í sigurliðum

Orri Freyr Þorkelsson leikmaður Sporting Lissabon. Mynd/Sporting
- Auglýsing -

Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur hjá Sporting með níu mörk þegar liðið vann Dinamo Búkarest eftir mikla baráttu á lokasprettinum, 35:33, í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik í kvöld. Leikið var í Lissabon. Sigurinn tryggði Sporting áfram annað sæti fjórða riðils Evrópudeildarinnar en sextán liða úrslit hófust í kvöld með átta leikjum í fjórum riðlum.

Leikmenn Dinamo virtust ekkert ætla að gefa eftir í Lissabon í kvöld. Þeir voru með yfirhöndina lengst af í síðari hálfleik. Á síðustu 10 mínútunum tókst Orra Frey og félögum að komast yfir og tryggja sér bæði stigin af miklu harðfylgi.

Stórsigur hjá Teiti Erni

Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg í stórsigri á Bjerringbro/Silkeborg á heimavelli 38:28. Myndskeið með einu marka Teits Arnar er hér fyrir neðan. Flensburg og Kadetten eru efst í þriðja riðli með fjögur stig hvort.

Tap í Póllandi

Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir pólska liðinu Górnik Zabrze, 29:26, í Póllandi. Löwen var tveimur mörkum yfir í hálfleik. Harðskeyttir leikmenn pólska liðsins sneru við taflinu í síðari hálfleik. Löwen var yfir, 18:13, en missti þá dampinn og heimamenn skoruðu 14 mörk gegn fjórum, á rúmlega stundarfjórðungskafla.

Arnór Snær og Ýmir Örn skoruðu ekki mark í leiknum. Rhein-Neckar Löwen er í þriðja sæti 1. riðils á eftir Nantes og Hannover-Burgdorf.

Tryggvi í Króatíu

Tryggvi Þórisson og félagar í sænska meistaraliðinu Sävehöf töpuðu fyrir RK Nexe í Krótaíu í kvöld, 29:28. Sävehöf er í þriðja sæti 2. riðils með þrjú stig.

Evrópudeild karla – 16-liða úrslit – leikir og staðan

Fjórir fjögurra liða riðlar

Sextán liða úrslit Evrópudeildar karla eru leikin í fjórum fjögurra liða riðlum. Liðin taka með sér úrslit leikja úr riðlakeppni 32-liða úrslita. T.d. þá voru Hannover-Burgdorf og Górnik Zabrze saman í riðli í 32 liða úrslitum. Þau mætast ekki aftur þótt þau séu saman í riðli. Sömu sögu er að segja af Nantes og Rhein-Neckar Löwen sem einnig eru í riðli eitt.

Beint í átta liða úrslit

Leikið verður heima og að heiman, alls fjórar umferðir. Eftir það fara sigurlið hvers riðils beint áfram í átta liða úrslit. Liðin sem hafna í öðru og þriðja sæti mætast heima og heiman. Sem dæmi má nefna er að liðið sem hafnar í öðru sæti í riðli eitt mætir liðinu sem verður í þriðja sæti í riðli tvö. Samanlagður sigurvegari fer í átta liða úrslit.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -