- Auglýsing -
- Spánverjinn David Davis var í morgun kynntur til leiks sem eftirmaður Xavier Pascual í stól þjálfara rúmenska meistaraliðsins Dinamo Búkarest. Pascual var leystur frá störfum á dögunum eftir þriggja ára veru en hann verður næsti þjálfari Telekom Veszprém í Ungverjalandi.
- Davis hefur víðtæka reynslu sem þjálfari og var m.a. þjálfari hjá Telekom Veszprém frá 2018 til 2021. Einnig hefur hann verið hjá Vardar og með egypska landsliðið. Undangengin tvö ár hefur Davis þjálfað egypsku meistarana Al Ahly.
- Annika Fríðheim Petersen markvörður færeyska landsliðsins tekur við stöðu markvarðar danska úrvalsdeildarliðsins EH Aalborg af Elínu Jónu Þorsteinsdóttur landsliðsmarkverði sem ákvað í vor að ganga til liðs við Aarhus United sem einnig leikur í dönsku úrvalsdeildinni. Annika Fríðheim lék á síðasta tímabili með Follo í norsku úrvalsdeildinni, þar áður var hún með Nykøbing Falster hvaðan hún kom frá Haukum í ársbyrjun 2022.
- Paulo Pereira landsliðsþjálfari Portúgal hefur verið ráðinn þjálfari RK Celje í Slóveníu til næstu tveggja ára. Eins og handbolti.is hefur sagt frá tvisvar uppá síðkastið þá fór félagið þá leið að auglýsa eftir þjálfara í gegnum LindkedIn sem margir úr viðskiptaheiminum þekkja. Alls bárust 120 umsóknir. Jafnt og þétt var hópur umsækjenda grisjaður þangað til Pereira stóð einn eftir.
- Talsverð uppbygging bíður Portúgalans hjá RK Celje sem hefur ekki lengur þá yfirburði sem lið félagsins hafði árum saman í Slóveníu.
- Norðmaðurinn Sindre Aho hefur samið við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg til næstu tveggja ára. Aho, sem er 26 ára gamall miðjumaður, kemur til félagsins frá MT Melsungen í Þýskalandi en hann var keyptur til félagsins í lok október á síðasta ári frá Elverum í Noregi og átti að leysa af Domagoj Pavlovic sem meiddist.
- Auglýsing -