„Ein helsta spurningin var sú hvort velja ætti tvo eða þrjá markverði. Ég ákvað snemma að vera ekki að velta þessu mikið fyrir mér heldur fara með tvo markverði, Viktor Gísla og Björgvin Pál,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla þegar hann valdi 20 leikmenn til æfinga fyrir Evrópumótið sem fram fer í Þýskalandi í næsta mánuði.
„Ágúst Elí hefur leikið vel upp á síðkastið með Ribe-Esbjerg og hrærði aðeins í súpunni hjá mér,“ sagði Snorri Steinn sem ákvað að veðja á þá tvo markverði sem hafa mest leikið með landsliðinu á síðustu árum.
Fleiri markverðir eru í 35 manna hópnum sem Snorri Steinn hefur úr að velja komi eitthvað upp hjá Viktori Gísla Hallgrímssyni og Björgvin Pál Gústavssyni áður en EM hefst eða ef þjálfaranum snýst hugur.
Björgvin Páll hefur tekið þátt í öllum stórmótum íslenska landsliðsins frá Ólympíuleikunum í Peking 2008. EM í Þýskalandi verður sautjánda stórmót hans. Björgvin Páll hefur klæðst landsliðstreyjunni í 258 skipti.
EM í Þýskalandi verður fimmta stórmót A-landsliða hjá Viktori Gísla, þar af þriðja Evrópumótið í röð. Viktor Gísli á 49 landsleiki að baki.
Landsliðið kemur saman til fyrstu æfingar fyrir EM miðvikudaginn 27. desember.
Leikir Íslands í C-riðli EM í München:
12.jan.: Ísland – Serbía, kl. 17.
14.jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17.
16.jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.
Tengt efni:
Forkeppni ÓL er fyrsta markmiðið – þarf framúrskarandi árangur
Ef við spilum vel þá eigum við að vinna þessar þjóðir
Fellur vel inn í þann handbolta sem ég vil spila
Gríðarlega mikilvægur enda mjög góður í handbolta
Elvar Örn er helsta spurningamerkið
Snorri Steinn hefur valið 20 til æfinga – 18 fara á EM