„Við notuðum allan okkar tíma fyrir þennan leik til þess að vinna í varnarleiknum. Sú vinna skilaði sér í gær og lagði grunn að sigrinum ásamt frábærri frammistöðu Daníels Freys í markinu. Strákarnir lögðu mikla vinnu í leikinn og það var virkilega gaman að sjá það skila þessari frammistöðu sem fyrst og fremst var liðsheildinni að þakka,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í morgun hvar hann snæddi árbít útivið í veðurblíðu í Belgrad í Serbíu.
Sigursteinn stýrði FH-ingum til magnaðs sigurs á RK Partizan í gær, 30:23, í síðari viðureign liðanna í 2. umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik. Um var að ræða 100. leik karlaliðs FH í Evrópukeppni.
Eftir jafntefli í Kaplakrika, 34:34, hvar varnarleikur FH-inga var slakur og svipuð frammistaða fylgdi í kjölfarið í leik við Stjörnuna á mánudagskvöld sagði Sigursteinn að allt púður FH-inga hafi verið lagt í varnarleikinn á síðustu dögum.
Fyrsti leikur karlaliðs FH í Evrópukeppninni gegn norska liðinu Fredensborg 1965 í Laugardalshöll, 19:15, og síðan aftur í Höllinni, 16:13.
Engin bylting
„Við umbyltum engu í okkar varnarleik. Planið í gær var svipað og í fyrri leiknum. Munurinn var sá að okkur tókst að skerpa á öllum vinnureglum og fylgja þeim betur en áður. Stundum þarf að taka skref til baka, vinna í grunninum, svo hægt sé að taka skref áfram. Það má segja að við höfum gert það. Stundum tekst að ná fram þeim leik sem lagt er upp með, stundum ekki. Hjá okkur gekk allt upp í gær,“ sagði Sigursteinn sem var skiljanlega afar sáttur með frammistöðu sinna manna sem léku m.a. án Arons Pálmarssonar sem varð eftir heima af persónulegum ástæðum.
Við spiluðum mjög vel
Sigursteinn sagði leikmenn forráðamenn Partizan hafa skiljanlega verið vonsvikna yfir að tapa með sjö marka mun á heimavelli.
„Þeir létu vonbrigði sín ekki bitna á okkur heldur báru virðingu fyrir niðurstöðunni og þeirri staðreynd að þeir töpuðu fyrir betra liði að þessu sinni. Við spiluðum mjög vel,“ sagði Sigursteinn og tók undir með blaðamanni að það væri stórt að vinna eitt af toppliðum Serbíu á heimavelli þess með sjö marka mun.
Mjög gott lið
„Meðal leikmanna Partizan er nokkrir sem stærri félagslið í Evrópu eru að fylgjast með. Partizan er með mjög gott lið enda erum við mjög ánægðir með að hafa unnið þá og það örugglega með frábærum leik,“ sagði Sigursteinn sem fer frá Belgrad yfir til Vínarborgar fyrir um miðjan dag og þaðan áfram heim til Íslands.
Næsti leikur FH í Olísdeildinni verður á föstudagskvöld í Kaplakrika gegn Íslandsmeisturum ÍBV.