- Auglýsing -
- Auglýsing -

Andstæðingur ÍBV: Förthof UHK Krems

Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Austurríska handknattleiksliðið Förthof UHK Krems sem mætir ÍBV í tvígang í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik er með bækistöðvar í nærri 25 þúsund manna bæ, Krems an der Donau, um 70 km vestur af Vínarborg.

Síðast meistari 2022

UHK Krems hefur fimm sinnum orðið austurrískur meistari í handknattleik karla. Fyrst árið 1973 en síðast vorið 2022. Síðast vann lið félagsins bikarkeppninnar vorið 2019 og þá í fimmta sinn. Sem stendur er UHK Krems í sjöunda sæti austurrísku 1. deildarinnar með sex stig að loknum sex leikjum.
Heimavöllur liðsins er Sporthalle Krems sem rúmar 1.500 áhorfendur.

Vann lið frá Norður Makedóníu

UHK Krems sló út GRK Tikves frá Norður Makedóníu í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar eftir að hafa setið yfir í fyrstu umferð. Krems tapað í Kavadarci í Norður Makedóníu, 33:29, en vann örugglega síðari leikinn í Krems an der Donau á laugardaginn, 33:25.

Þjálfari UHK Krems frá 2017 er Ibish Thaqi. Hann er austurrískur ríkisborgari sem fæddist í Kósovó en fluttist ungur til Austurríkis.

Uppnám á síðasta ári

Uppnám varð á heimaleik UHK Krems og RK Vojvodina frá Novi Sad í Serbíu í fyrra þegar um 70 manna hópur hægri þjóðernissinnaðra Serba mætti á leikinn og hagaði sér dólgslega, sýndi af sér ógnandi í framkomu, hrækti m.a. á leikmenn Krems og hrópuðu níðyrði um Thaqi þjálfara Kremsliðsins. Mátti minnstu muna að ástandið færi alveg úr böndum. Varð að fá lögreglu til að rýma áhorfendastæðin svo hægt væri að hefja leik.

Ástæða þessarar uppákomu eru deilur Serba og Kósovóbúa um yfirráð yfir Kósovó. Serbía hefur aldrei viðurkennt sjálfstæði Kósovó og hefur verið afar grunnt á því góða á milli þjóðanna síðustu vikur og legið við bardögum.

Dæmdir úr leik

Þessi ljóta uppákoma varð til þess að UHK Krems-liðið mætti ekki í síðari leikinn. Töldu stjórnendur félagsins að ekki yrði hægt að tryggja öryggi þjálfarans og leikmanna.

Handknattleikssamband Evrópu dæmdi UHK Krems úr leik fyrir að mæta ekki. RK Vojvodina var sektað vegna uppákomunnar í fyrri leiknum en hélt áfram og fór svo að það stóð uppi sem sigurvegari í Evrópubikarkeppninni í vor.

Leikir 3. umferðar eða 32 liða úrslita, eiga að fara fram 25. og 26. nóvember og 2. og 3. desember. Innan nokkurra daga ætti að skýrast hvort liðin nýta heimaleikjarétt sinn eða kjósa að leika báða leikina heima eða að heiman. Ef leikið verður heima og að heiman fer síðari leikurinn fram á heimavelli ÍBV.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -