Valsliðið sem leikur, undir stjórn Óskars Bjarna Óskarssonar, gegn rúmenska liðinu CS Minaur Baia Mare á morgun að Hlíðarenda, er áttunda íslenska liðið sem tekur þátt í undanúrslitaleikjum í Evrópukeppninni í handknattleik.
Það var Hilmar Björnsson sem reið á vaðið með lið Vals í Evrópukeppni meistaraliða 1979-1980, þegar Valur tryggði sér óvæntan sigur á Atletico Madrid frá Spáni og lék síðan úrslitaleikinn gegn þýska liðinu Grosswallstadt í München.
Óskar Bjarni fór með Valsliðið í undanúrslit Áskorendakeppninnar 2016-2017. Guðlaugur Arnarsson þjálfaði Val með Óskari Bjarna þetta tímabil.
Valur hefur átt þrjú lið í undanúrslitaleikjum, en fimm önnur lið hafa takið þátt í undanúrslitum.
* Þróttur R. í Evrópukeppni bikarhafa 1981-1982. Ólafur H. Jónsson, sem einnig var leikmaður, stjórnaði liðinu. Hann er eini spilandi þjálfarinn sem hefur komið liði sínu í undanúrslit.
* Víkingur (Bogdan Kowalczyk) lék gegn Barcelona í undanúrslitum Evrópukeppni bikarhafa 1984-1985. Leikmenn Víkings gátu kennt sjálfum sér um að komast ekki í úrslitaleikinn.
* FH (Guðmundur Magnússon, Dadú) lék í undanúrslitum Evrópukeppni meistaraliða 1984-1985. Þarna komust FH og Víkingur í undanúrslit á sama keppnistímabilinu, sem var afrek hjá fámennri þjóð, en bæði liðin léku gegn geysilega sterkum liðum. FH lék gegn júgóslavneska liðinu Metaloplastika.
* Haukar (Viggó Sigurðsson) léku í undanúrslitum EHF-keppninni 2001-2002.
* ÍBV (Arnar Pétursson) lék í undanúrslitum Áskorendakeppninnar 2017-2018 en tapaði með eins marks mun, 56:55, samanlagt í tveimur leikjum fyrir rúmenska liðinu Potaissa Turda, sama liði og Valur tapaði fyrir í undanúrslitum árið á undan.
Við skulum renna nánar yfir leiki íslensku liðanna og leiki þeirra að undanúrslitum.
10 áhorfendur mættu til leiks í London
Valur hóf keppni í Evrópukeppni meistaraliða 1979-1980 í London, þar sem leiknir voru tveir leikir gegn Brentwood í London. 10 áhorfendur mættu á fyrri leikinn, 32:19. Valur vann seinni leikinn 38:16.
Valur ruddi sænska liðinu Drott úr vegi í 8-liða úrslitum og mætti geysilega öflugu spænsku liði, Atlético Madrid, í undanúrslitum. Fyrri leikurinn fór fram í Madrid, þar sem heimamenn fögnuðu sigri, 24:21. Liðsheild Vals var sterk í leiknum og ætluðu Valsmenn sér ekkert annað en að slá Spánverjana út í Laugardalshöllinni. Það var mikil stemning í Höllinni og Valsmenn mættu ákveðnir til leiks. Ólafur Benediktsson fór á kostum í marki Valsmanna og var Þorbjön Jensson afar sterkur í vörninni og einnig í sókn, skoraði 5 mörk. Þegar 1,20 mín. voru til leiksloka skoraði Stefán Gunnarsson 18:14, en Uris svaraði strax fyrir Atlético, 18:15. Spennan var mikil og misstu Valsmenn knöttinn fá sér í æsingnum. Spánverjar sóttu grimmt, þeir þurfti eitt mark til að komast áfram. Valsmenn vörðust hetjulega og komu í veg fyrir að Spánverjar skoruðu.
Valur var kominn áfram í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða. Nokkuð sem fáir höfðu trúað. Samanlögð úrslit voru 39:39, en Valur komst áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.
Áhorfendur geystust inn á gólfið eftir leikinn til að fagna og var svo sannarlega kátt í höllinni. Valur lék úrslitaleikinn gegn Grosswallstadt í München og tapaði, 12:21.
Þjálfari: Hilmar Björnsson.
7 leikir: 4 sigurleikir, 3 tapleikir.
156 mörk. Þorbjörn Guðmundsson markahæstur, 36 mörk.
Helstu leikmenn: Ólafur Benediktsson, Þorbjörn Jensson, Jón Pétur Jónsson, Bjarni Guðmundsson, Stefán Gunnarsson, Stefán Halldórsson, Steindór Gunnarsson.
Þróttur R. 1981-1982
Þróttarar tóku þátt í sinni fyrstu og einu Evrópukeppni keppnistímabilið 1981-1982, er þeir léku í Evrópukeppni bikarhafa og komust í undanúrslit. Ólafur H. Jónsson, sem hafði leikið með Dankersen í Vestur-Þýskalandi, var orðinn þjálfari og leikmaður Þróttar og lykilleikmenn þeirra voru landsliðsmennirnir Sigurður Valur Sveinsson og Páll Ólafsson, sem urðu síðar atvinnumenn í Þýskalandi.
Þróttur komst í undanúrslit EB með því að slá út Kristiansund, Noregi, Sittardia, Hollandi og Pallamano Tacca, Ítalíu.
Tékkneska stórliðið Dukla Prag var of sterkt fyrir Þrótt í undanúrslitum. Fagnaði sigri í Reykjavík, 23:19, og í Prag, 21:17.
Þjálfari: Ólafur H. Jónsson.
8 leikir: 5 sigurleikir, 3 tapleikir.
178 mörk: Sigurður V. Sveinsson 59 mörk, Páll Ólafsson 41.
Helstu leikmenn: Sigurður Valur, Páll, Ólafur H., Jens Jensson, Gunnar Gunnarsson.
Víkingur 1984 – 1985
Víkingur fékk leyfi hjá Handknattleikssambandi Íslands til að Bogdan Kowalczyk mætti þjálfa Víking samhliða landsliðinu keppnistímabilið 1984-1985, en Bogdan hafði þjálfað Víking 1978-1983, er hann var ráðinn landsliðsþjálfari.
Víkingur tók þátt í Evrópukeppni bikarhafa og ruddi úr vegi Fjellhammar, Noregi, Tres de Mayo, Tenerife á Spáni (Sigurður Gunnarsson lék með liðinu) og Crvanka, Júgóslavíu, áður en Víkingar mættu Barcelona í undanúrslitum.
Fyrri leikurinn fór fram í Reykjavík, þar sem Víkingar unnu óvæntan stórsigur, 20:13. Sterk liðsheild, frábær vörn og góð markvarsla Kristjáns Sigmundssonar skóp þennan glæsilega 7 marka sigur. Víkingur komst í 3:0 áður en Spánverjarnir skoruðu sitt fyrsta mark eftir 11,30 mín. leik og staðan í leikhléi var 11:4!
Spánverjarnir gerðu allt til að hrella Víkinga fyrir seinni leikinn; í Barcelona. Rútan sem átti að sækja Víkinga í leikinn kom klukkutíma of seint. Það varð til þess að Viggó Sigurðsson, sem þekkti vel til í Barcelona, þar sem hann lék eitt keppnistímabil með Barcelona-liðinu, pantaði nokkra leigubíla til að koma leikmönnum í tæka tíð í keppnishöllina, þannig að þeir gætu hitað upp.
Leikmenn Barcelona komu grimmir til leiks og náðu strax yfirhöndinni og unnu með 10 marka mun, 22:12. Víkingar náðu sér ekki á strki, létu dómara og áhorfendur fara í skapið á sér. Þeir gátu sjálfum sér kennt hvernig fór. Víkingar nýttu ekki fjögur af 5 vítaköstum sem þeir fengu. Ef þeir hefðu skorað úr þremur af fjórum sem þeir nýttu ekki, hefði það dugað til að Víkingar færu í úrslitaleikinn.
Bogdan var afar óhress með dómara frá Júgóslavíu, sem dæmdu leikinn. Sagði þá heimadómara!
Þjálfari: Bogdan Kowalczyk.
8 leikir: 6 sigurleikir, tveir tapleikir.
182 mörk. Viggó Sigurðsson 48, Þorbergur Aðalsteinsson 41.
Helstu leikmenn: Viggó, Þorbergur, Kristján Sigmundsson, Guðmundur Þ. Guðmundsson, Steinar Birgisson, Hilmar Sigurgíslason og Karl Þráinsson.
FH 1984 – 1985
FH-ingar tóku þátt í Evrópukeppni meistaraliða 1984-1985 undir stjórn Guðmundar Magnússonar, Dadú, sem hafði verið fyrirliði FH-liðsins og tekið á móti Íslandsbikarnum 1984. Ráðning Guðmundar var óvænt, en hann ákvað að leggja keppnisskóna á hilluna til að einbeita sér að nýju verkefni.
FH-ingar byrjuðu á því að slá norska liðið Kolbotn út úr keppni og skoraði Hans Guðmundsson 10 og 12 mörk í leikjunum. Hans skoraði 10 mörk gegn FH lagði Honvet frá Ungverjalandi að velli í Hafnarfirði, 26:22 og sendu ungveska meistaraliðið út, en Honvet hafði tvisvar áður, 1966-1967 og 1969-1970, slegið FH úr keppni í Evrópukeppni meistaraliða. FH lagði hollenska liðið Herschi Vlug en Lenig að velli í 8-liða úrslitum.
Í undanúrslitum voru mótherjar FH hið gríðarlega sterka júgóslavneska lið Metaloplastika, sem var svo gott sem landslið Júgóslavíu. Liðið var of sterkt fyrir FH, sem mátti þola tvö töp, 17:23, úti, og 21:30 í Hafnarfirði.
Þjálfari: Guðmundur Magnússon, Dadú.
8 leikir: 4 sigurleikir, eitt jafntefli, þrír tapleikir.
212 mörk: Hans Guðmundsson 60, Kristján Arason 44, Þorgils Óttar Mathiesen 35.
Helstu leikmenn: Hans, Kristján, Þorgils Óttar, Valgarður Valgarðsson, Guðjón Árnason, Guðjón Guðmundsson, Jón Erling Ragnarsson, Óskar Ármannsson, Pálmi Jónsson, Sverrir Kristinsson og Magnús Árnason.
Á MORGUN:
Óskar Bjarni Óskarsson og lærisveinar í sviðsljósinu.
Kveðja,
Sigmundur Ó. Steinarsson.
Síðari grein Sigmundar um íslensk félagslið í undanúrslitum: