- Auglýsing -
- Auglýsing -

Axel er einn sá besti í sögu Grün-Weiß Dankersen-Minden

Axel Axelsson kastar boltanum að marki Gummersbach í leik með Grün-Weiß Dankersen-Minden áttunda áratugnum. Ljósmynd/MT
- Auglýsing -

Axel Axelsson fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik er í úrvalsliði þýska handknattleiksliðsins Grün-Weiß Dankersen-Minden [í seinni tíð GWD Minden] sem valið var í tilefni 100 ára afmælis félagsins á árinu.

Fengnir voru sex álitsgjafar sem fylgst hafa með handknattleiksliði Grün-Weiß Dankersen-Minden í gegnum tíðina. Þeir völdu úrvalslið leikmanna sem leikið hefur fyrir lið félagsins í hverja stöðu á leikvellinum. Fjórir af þessum sérfræðingum völdu Axel sem bestu vinstri skyttu í sögu Grün-Weiß Dankersen-Minden.

Sjá einnig: Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

Var í nærri áratug

Axel lék með Dankersen frá 1974 til 1983 að tímabilinu 1980 til 1981 undanskildu er hann flutti heim í ár og lék með og þjálfaði karlalið Fram. Reyndar svaraði Axel kalli forsvarsmanna félagsins undir lok tímabilsins vorið 1981 og flutti aftur út. Samdi Axel við félagið sem var þá í fallhættu. Fór svo að liðið féll en Axel samdi til tveggja ára. Lék hann eitt tímabil í 2. deild, 1981-1982, og síðan í 1. deild 1982 – 1983 áður en hann flutti heim ásamt fjölskyldu sinni

Avel Axelsson.

Vann fjóra titla

Axel varð þýskur meistari með Dankersen 1977 og bikarmeistari 1975, 1976 og 1979 og hreppti silfurverðlaun í þýsku deildinni 1975 og 1976. Í bæði skiptin eftir tap fyrir Gummersbach. Á þeim árum var deildarkeppnin tvískipt.

Valið í úrvalslið Grün-Weiß Dankersen-Minden er mikil viðurkenning fyrir Axel og íslenskan handknattleik enda lék hann með liðinu þegar það var í allra fremstu röð í þýsku og evrópskum handknattleik. Grün-Weiß Dankersen-Minden hefur hvorki orðið þýskur meistari né bikarmeistari síðan á áttunda áratug síðustu aldar.

Í bók með tölfræði þýsku 1. deildarinnar frá 1977 til 1999 kemur fram að Axel skoraði 364 mörk í 85 leikjum í 1. deildinni á fimm tímabilum. Tölfræðin nær ekki yfir fyrstu ár Axels í Þýsklandi, 1974 til 1977, þegar 1. deild var tvískipt.

Þýðingamesta vítakastið

Axel tryggði Dankersen þýska meistaratitilinn í handknattleik þegar hann skoraði sigurmarkið, 21:20, gegn Großwallstadt.

„Axel Axelsson tók þýðingamesta vítakastið í sögu þýsku „Bundesligunnar“ í handknattleik, þegar hann tryggði Grün-Weiß Dankersen-Minden Þýskalandsmeistaratitlinn í handknattleik 15. maí 1977 í hreinum úrslitaleik í Westfalenhalle í Dortmund fyrir framan 6.500 áhorfendur,“ skrifar Sigmundar Ó. Steinarsson blaðamaður í grein sem hann ritaði fyrir handbolta.is í mars 2022 þar sem hann segir frá úrslitaleiknum, aðdraganda hans og eftirmálum.

Axel í landsleik við Bandaríkin í íþróttahúsinu við Strandgötu. Myndin er úr bókinni, Handknattleiksbókin, sagana handknattleiks á Íslandi 1920 til 2010.

Sjá einnig: Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!

Fyrsti Íslendingurinn í úrslitaleik

Axel lék einnig með Grün-Weiß Dankersen-Minden til úrslita í Evrópukeppni bikarhafa 1976 gegn Granollers frá Spáni en beið lægri hlut, 26:24. Var Axel fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn sem lék til úrslita í Evrópukeppni félagsliða.

Vinsæll í Þýskalandi

„Það kom í ljós þegar leikmenn Íslands og Vestur-Þýskalands voru kynntir fyrir landsleik í Lübeck 1981, hvað Axel var vinsæll. Áhorfendur fögnuðu dýrlingnum Erhard Wunderlich mikið er hann var kynntur og einnig þegar nafn Ólafs [H. Jónsson sem lék með Dankersen frá 1975-1979] var lesið upp. Það ætlaði aftur á móti allt vitlaust að verða af fögnuði þegar Axel var kynntur. Það var þá sem landsliðsmenn Íslands gerðu sér grein fyrir hvað Axel var vinsæll í Þýskalandi, en hann og Ólafur urðu Þýskalandsmeistarar með Dankersen.

Axel varð fyrsta stórstjarnan frá Íslandi í þýskum handknattleik, en þær áttu eftir að verða fleiri,“ segir í annarri grein sem Sigmundur Ó. Steinarsson ritaði fyrir handbolta.is.

Hjónin Axel Axelsson og Kristbjörg Magnúsdóttir.
Kristbjörg Magnúsdóttir, eiginkona Axels, varð tvisvar sinnum Vestur-Þýskalandsmeistari með liði sínu TuS Eintracht Minden; 1975 og 1976, og einu sinni bikarmeistari 1977. Þannig að hún og Axel tóku á móti bikurum með liðum sínum; sömu þrjú árin.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -