Handknattleikskonan Brynja Katrín Benediktsdóttir hefur ákveðið að kveðja Val og skrifað undir samning við Stjörnuna. Brynja Katrín er tvítug og lék sem lánsmaður hjá FH í Grill 66-deildinni á síðustu leiktíð. Skoraði hún 35 mörk í 13 leikjum.
Brynja Katrín lék upp yngri flokkana með HK en skipti síðar yfir í Val og var með U-liði félagsins en var einnig í Íslandsmeistaraliði félagsins fyrir ári.
Brynja Katrín er fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við Stjörnuna á síðustu vikum. Aðrar eru m.a. Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir, Julia Lönnborg og Tinna Sigurrós Traustadóttir. Einnig hafa samningar verið framlengdir við nokkra leikmenn til viðbótar auk þjálfaraskipta.
Brynja Katrín er efnileg línukona sem á sæti í U20 ára landsliðinu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer í Norður Makedóníu síðari hluta næsta mánaðar. Einnig var Brynja Katrín í U17, U18 og U19 ára landsliðinu sem keppti á EM og HM sumrin 2021, 2022 og 2023.
„Brynja Katrín er U20 ára landsliðskona sem ég hef mikla trú á að eigi eftir að spila vel fyrir Stjörnuna. Hún hefur rétta hugarfarið og er ég mjög ánægður að fá að þjálfa hana,“ segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari meistaraflokks Stjörnunnar í tilkynningu.