Ballið er byrjað á nýjan leik, kann einhver að segja. Fyrsti landsliðsmaðurinnn hefur verið sendur í sóttkví í aðdraganda heimsmeistaramótsins í handknattleik karla. Danska handknattleikssambandið tilkynnti í morgun að nýliðinn Simon Pytlick hafi greinst með covid. Meðan frekari rannsókn stendur yfir hefur Pytlick verið einangraður frá liðsfélögum sínum.
Allur er varinn góður
Hugsanlegt er að um sé að ræða gamalt smit en danska handknattleikssambandið segir að allur sé varinn góður. Pytlick fer í fleiri skimanir áður hann fær grænt ljós til að æfa með danska landsliðinu á nýjan leik.
Pytlick er sagður einkennalaus og við hestaheilsu í sóttkví á hóteli danska landsliðsins.
Leikjadagskrá HM – smellið hér.
Allir prófaðir í gær
Allir leikmenn danska landsliðsins, þjálfarar og starfsmenn fóru í covidpróf í gærmorgun áður en hafist var handa við formlegan undirbúning fyrir HM. Danska landsliðið er meistari tveggja síðustu heimsmeistaramóta.
Eins og fram hefur komið á handbolta.is þá verða leikmenn að skila inn niðurstöðu af neikvæðu covidprófi þegar þeir mæta til leiks á heimsmeistaramótinu sem hefst 11. janúar í Póllandi og Svíþjóð. Danir eiga fyrsta leik 13. janúar í Malmö.