Afturelding er áfram taplaus í Olísdeild karla í handknattleik eftir að hafa lagt Gróttu, 20:17, í upphafsleik 4. umferðar í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi. Leikurinn verður seint í minnum hafður nema þá helst fyrir hversu hægur hann var og minnti stundum á leiki frá því fyrir 30 og 40 árum síðan.
Afturelding er þar með komin í efsta sæti deildarinnar í bili, að minnsta kosti, með sjö stig. Grótta er áfram í neðri hlutanum með stigin sín tvö.
Leikurinn i Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld var ekki mikill að gæðum. Framan af gekk illa að skora því leikmenn beggja liða gerðu sig seka um fjölda einfaldra mistaka, svo mjög að nánast var engu líkara en vinnustaða lið væru að leika sér en ekki keppnislið í efstu deild. Þess utan var leikuinn hægur og ekki bættu mistökin úr skák.
Þessi þófkenndi leikur var í járnum allan fyrri hálfleik og sjaldan var munurinn meiri en eitt mark á hvorn veginn sem var. Afturelding var marki yfir í hálfleik, 10:9. Já, mörkin voru fá í mistækum göngubolta sem liðin buðu þeim fáu áhorfendum sem máttu koma í Hertzhöllina að þessu sinni.
Eftir að vera með yfirhöndina í hálfleik þá hélt Afturelding frumkvæðinu áfram í síðari hálfleik. Heimamenn voru aldrei langt undan og reyndu að sæta færis en allt kom fyrir ekki.
Frammistaða markvarða liðanna var nánast það eina sem gladdi áhorfendur. Þeir voru vel með á nótunum. Stefán Huldar Stefánsson, Gróttumegin, og Arnór Freyr Stefánsson hjá Aftureldingu. Þeir voru með á milli 40 og 50% hlutfallsmarkvörslu.
Hinsvegar var vasklega framganga markvarðanna ekki eina skýringin á fáum mörkum og á tíðum svipuðum handknattleik og var e.t.v. boðið upp á áttunda áratugnum.
Sem fyrr gerðu Gróttumenn talsvert af því að leika með sjö menn í sókn. Gafst það misjafnlega og varð heldur til að draga niður í hraða leiksins en hitt. Hægur leikur er helsta vopn þeirra. Víst er að leikmenn liðsins nota leiktímann til hins ítrasta og fara sem í engu óðslega. Það kostar svo sannarlega þolinmæði að brjóta leikmenn Gróttu á bak aftur.
Afureldingarliðið endurheimti Halldór Inga Jónasson og Gunnar Kristinn Þórssson fyrir leikinn en þeir voru í sóttkví fyrir viku þegar Mosfellingar fengu leikmenn Selfoss í heimsókn.
Hannes Grimm og Andri Þór Helgason skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Gróttu og voru markahæstir.
Bergþór Þór Gíslason og Guðmundur Árni Ólafsson skoruðu fimm mörk hvor og voru atkvæðamestir hjá Aftureldingu.