- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hannes Þ. kom heim með HM-boð frá Austur-Þjóðverjum

Landsliðið sem lék fyrsta leikinn á HM 1958 í Magdeburg. Birgir Björnsson, Guðjón Ólafsson, Kristófer Magnússon, Þórir Þorsteinsson, Reynir Ólafsson, Gunnlaugur Hjálmarsson, Hermann Samúelsson, Einar Sigurðsson, Ragnar Jónsson, Karl Jóhannsson og Bergþór Jónsson. Mynd/Einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.
- Auglýsing -

Nú þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson er kominn til Kristianstad á Skáni, til að taka þátt í heimsmeistarakeppninni 2023, sem fer fram í Svíþjóð og Póllandi, eru liðin nær 65 ár síðan Íslendingar tóku fyrst þátt í HM, sem fór fram í Austur-Þýskalandi 1958. Ísland hafði ekki leikið landsleiki í 8 ár, eða síðan 1950 í Svíþjóð, í Danmörku og gegn Finnum á Melavellinum, 3:3. Sextán leikmenn fóru til A-Þýskalands og voru þeir allir nýliðar nema Valur Benediktsson, Val, sem lék leikina þrjá 1950. Þá voru aðrir tímar; einn þjálfari og tveir fararstjórar fóru með landsliðinu.

  Það benti allt til að HM færi fram í Portúgal 1958, en Portúgalar höfðu sótt um að halda mótið og fengið jákvæðar móttökur. Draumur þeirra rættist ekki, þar sem á ársþingi Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, 1956 í Stokkhólmi, lögðu Austur-Þjóðverjar, sem höfðu á þinginu fengið aðild að IHF, einnig fram umsókn. Nokkurt þref varð um umsókn Austur-Þjóðverja á fundinum, en það leystist í samráði við fulltrúa þeirra austan- og vestanmanna fyrir milligöngu alþjóða sambandsins, sem hélt sérstakan fund um málið og fann lausn á því. Farið var eftir samþykkt alþjóða Ólympíunefndarinnar, en í samþykkt hennar um aðild Þjóðverja sagði: „Þjóðverjar eru ein þjóð, en sem stendur tvö lönd. Skulu þeir því senda sameiginleg lið til Ólympíuleika og á heimsmeistarakeppnir, en mega hvert í sínu lagi heyja landskeppnir.“ 

Hannes Þ. Sigurðsson hafði í mörg horn að líta. Mynd/Einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Þá urðu nokkrar umræður um það hverjir fengu HM, og var samþykkt mótatkvæðalaust að mótið færi fram í Austur-Þýskalandi. Buðust Austur-Þjóðverjar til að greiða ferðakostnað 19 manna hóps allra þátttökuríkjanna til og frá mótstaðnum og ákveðið að mótið færi fram 27. febrúar til 8. mars 1958. Austur- og Vestur-Þjóðverjar sendu sameiginlegt lið til keppninnar. 

 Hannes Þ. Sigurðsson sat þingið fyrir hönd Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, sem var aðili að alþjóða handknattleikssambandinu, IHF.

 „Austur-Þjóðverjar lögðu fram tillögur sínar um HM og kynntu þeir borgir sem keppt yrði í. Þeir höfðu samband við mig og óskuðu eftir að Ísland yrði með, en Austur-Þjóðverjar lögðu mikla áherslu á að halda veglega heimsmeistarakeppni. Ég sagði frá þessu á fundi hjá ÍSÍ eftir að ég kom heim og voru menn spenntir fyrir þessu boði Þjóðverja og ákvað ÍSÍ að taka tilboðinu,“ sagði Hannes eitt sinn við pistlahöfund.

 Austur-Þjóðverjar sendu í kjölfarið ýmisleg gögn til ÍSÍ um heimsmeistarakeppnina 1958. „Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, sem lagði til að ég færi á IHF-þingið, lagði mikla áherslu á að Ísland hefði góð samskipti við önnur ríki – og hann lagði til að það yrði samþykkt sumarið 1957 að boð Austur-Þjóðverja yrði þegið og við sendum landslið okkar á HM,“ sagði Hannes.

 Það vó þungt á vogarskálinni að Siegfried Perrey, þjálfari Hasslock, sem kom til Íslands 1957, ráðlagði Íslendingum að vera með.

Árni Árnason, formaður HSÍ, afkastaði miklu fyrir HM. Mynd/Einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Íslenskir handknattleiksmenn höfðu kynnst því að leika í stórum íþróttahúsum er FH-liðið fór í keppnisferð til Danmerkur 1956 og síðan fóru lið FH og ÍR í keppnisferð til Vestur-Þýskalands 1957 og KR-ingar til Danmerkur. „Strákarnir fóru þá í gegnum góðan skóla, en landsliðið var byggt upp á leikmönnum frá þessum liðum,“ sagði Hannes.

 Eftir að ÍSÍ hafði tilkynnt þátttöku í heimsmeistarakeppninni í Austur-Þýskalandi var Handknattleikssamband Íslands stofnað 11. júní 1957 og fyrsta stóra verkefni sambandsins var að undirbúa landslið Íslands fyrir þátttöku í HM.

 Knattrek var samþykkt

 Þess má geta að á IHF-þinginu var samþykkt tillaga um hámarksstærð leikvalla 22×44 m. Þá var samþykkt með níu atkvæðum gegn sjö að 11 leikmenn væru nægjanlega margir á leikskýslu og samþykkt var að leyfa knattrek.

 Hannes sagði að þingið í Stokkhólmi hafi verið tímamótaþing, þar sem samþykkt var að breyta handknattleiksreglunum og leyfa leikmönnum að rekja knöttinn að vild um völlinn, en áður máttu leikmenn taka þrjú skref með knöttinn, slá honum niður og taka önnur þrjú skref áður en þeir sendu knöttinn frá sér. 

 „Þegar þessi tillaga um knattrek kom fram var ljóst að margir fulltrúar áttu í erfiðleikum með að gera það upp við sig, að samþykkja þessar róttæku breytingar á handknattleiknum. Það voru aðeins Svíar og Danir sem höfðu reynt knattrek að nokkru ráði. Svíar fylgdu málinu eftir undir stjórn Kurt Wadmarks, sem fór fyrir tækninefnd sambandsins. Wadmark var sannfærandi í sínum málflutningi og sýndi fram á að knattrek myndi fyrst og fremst gefa handknattleiknum meiri skemmtanagildi og laða að áhorfendur. Svíar stóðu fremstir í flokki með að þróa handknattleikinn í þá átt sem hann er orðinn í dag – og var Wadmark maðurinn á bak við margar nýjungar. Hann hafði mikla þekkingu og reynslu og var afburðar þjálfari, sem stjórnaði sænska landsliðinu.

 Til þess að kynna fyrir fulltrúum knattrekið efndu Svíar til sýningaleiks á milli liða frá Örebro og Stokkhólmi. Þar kom skýrt fram hvernig mátti nota knattrekið til að skapa meiri hreyfingu. Þessi sýningaleikur varð til þess að margir fulltrúanna – þar á meðal ég, sem áður höfðu verið tvístígandi í að taka upp knattrek, skiptu alveg um skoðun. Varð leikur þessi til þess að tækninefndin kallaði til fundar, og að honum loknum lagði nefndin eindregið til að knattrekið yrði leyft. Við atkvæðagreiðslu var samþykkt að leyfa knattrek með tíu atkvæðum gegn fimm,“ sagði Hannes.

 Hannes var síðan fenginn til að kynna þessar breytingar hér á landi – hjá félögum. Byrjað var að leika handknattleik með því að rekja knöttinn keppnistímabilið 1956-1957.

 „Ég hef haldið því fram að tvö mestu framfara sporin í þróun handknattleiksins eru þegar knattrek var samþykkt og síðan þegar tveggja dómara kerfið var tekið upp,“ sagði Hannes.

  Mikill áhugi fyrir HM

 Það varð strax mikill áhugi fyrir HM 1958 og bárust fréttir frá Berlín í apríl 1957 að 24 lönd hafi hug á þátttöku. Það var þá meiri þátttaka en um var að ræða í flestum slíkum mótum í öðrum íþróttagreinum, og meira að segja hefði körfuknattleikur átt erfitt með að fá þann fjölda í HM-mót sín. 

 Um skeið var nokkuð efast um framtíð handknattleiksins, en á það var bent að þessi þátttaka tók af öll tvímæli um það að handknattleikur ætti miklum vinsældum að fagna og menn yrðu að hlúa að íþróttinni – efla hana.

 Formlega komu 17 þátttökutilkynningar, en í ágúst drógu Svisslendingar þátttöku sína til baka, þannig að ljóst var að sextán þjóðir tækju þátt í keppninni: Svíþjóð, Þýskaland, Tékkóslóvakía, Danmörk, Ungverjaland, Rúmenía, Pólland, Júgóslavía, Austurríki, Finnland, Noregur, Íslands, Spánn, Luxemborg, Frakkland og Brasilía. Belgíumenn sendu inn þátttökubeiðni, en hún kom of seint.

 Ítalíu vikið úr IHF

 Á þinginu í Stokkhólmi voru Austur-Þýskaland, Kúba og Ísrael tekin inn í IHF, en Ítalíu var vikið úr samtökunum eftir töluverðar umræður. Þar sem Ítalir höfðu um langt skeið ekki staðið við skuldbindingar sínar við sambandið og engin landsmót haldið á Ítalíu í mörg ár. Ítalía var vísað úr IHF án mótatkvæða.

 Ísland í „dauðariðlinum“ 

 Dregið var í riðla í HM 1958 á fundi alþjóðasambandsins, IHF, í París 15. september 1957 og ákveðið var að fjórar þjóðir yrðu í riðli og kæmust tvær þjóðir upp úr hverjum riðli til leiks í tvo milliriðla. Sigurvegarar í þeim riðlum myndu leika til úrslita um heimsmeistaratitilinn.

 Þetta voru miklar breytingar frá HM í Svíþjóð 1954. Þá var fyrirkomulagið þannig að undankeppni fór fram víða um lönd og aðeins sex þjóðir af ellefu sem tóku þátt í keppninni, komust í úrslitakeppnina í Svíþjóð. Þjóðverjar vildu hafa annan hátt á – vildu fá öll liðin til sín, og greiða götu þeirra á margvíslegan hátt.

Bræðurnir Ragnar og Bergþór Jónssynir í nýjum æfingagöllum.

 Drátturinn var þannig í riðlana fjóra:

 A-riðill: Svíþjóð, Pólland, Finnland og Spánn.

 B-riðill: Þýskaland, Frakkland, Noregur og Lúxemborg.

 C-riðill: Tékkóslóvakía, Ísland, Ungverjaland og Rúmenía.

 D-riðill: Danmörk, Júgóslavía, Austurríki og Brasilía. 

  Það var ljóst að Ísland hafði lent í „dauðariðlinum“ með þremur öflugum þjóðum frá Austur-Evrópu.

 Undirbúningurinn hófst

 Fljótlega eftir að ÍSÍ ákvað þátttöku Íslands í HM hóf stjórn HSÍ undirbúning á Þýskalandsferð landsliðsins. Fyrsta stjórn Handknattleikssambands Íslands var þannig skipuð, að formaður var Árni Árnason, formaður Handknattleiksráðs Reykjavíkur, HKRR, Sigurður G. Norðdahl, HKRR, Rúnar Bjarnason, HKRR, Hallsteinn Hinriksson, Íþróttabandalag Hafnarfjarðar, ÍBH og Ásbjörn Sigurjónsson, Ungmennasamband Kjalarnessþings, UMSK. Varastjórn: Karl G. Benediktsspn, HKRR, Jón Guðmundsson, UMSK og Bjarni Sveinsson, ÍBH. Endurskoðendur voru Sveinn H. Ragnarsson og Valur Benediktsson, báðir HKRR.

Frú Helga Maltry og Reinhard Linke ræða við Ásbjörn Sigurjónsson, fararstjóra, við komuna til Berlínar. Þórir Þorsteinsson í baksýn. Mynd/Einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Tveggja manna landsliðsnefnd

 Fyrsta verk HSÍ var að skipa landsliðsnefnd, sem var skipuð Grímari Jónssyni, hinn kunni handknattleiksfrömuður í Val og Sigurði G. Norðdahl, Ármanni, sem lék fyrstu þrjá landsleiki Íslands 1950. Grímar og Sigurður hófu störf með því að fara að Leirvogstungubökkum í Mosfellssveit og fylgjast með leikmönnum, sem kæmu til greina í landsliðið. Þeir sáu þá að leikmenn voru ekki í góðri æfingu og gæði voru ekki góð hjá þeim. Þeir ákváðu að velja ekki leikmennn til æfinga fyrr en í lok desember, að  Reykjavíkurmótinu loknu. 

 Það gat ekki talist hlutverk algerlega févana handknattleikssambands að koma mönnum í þjálfun. Þess þáttur er samæfingar þjálfaðra manna, að æfa leikaðferðir og aðra þætti leiksins.

 Með þessu fyrirkomulagi var ljóst að þeir sem væru í bestri þjálfun um miðjan desember höfðu mesta möguleika á þátttöku á HM.

  Landsliðshópurinn valinn eftir „úrtökumót“

 Nýstofnað samband HSÍ hafði ekki yfir miklum peningum að ráða, þannig að leitað var eftir styrkjum. Þá var haldin ágóðaleikur á milli Íslandsmeistara FH og Reykjavíkurmeistara KR og einnig fór fram þriggja kvölda „úrtökumót“ um miðjan desember, sem varð vinsælt og dró að áhorfendur. FH lagði KR að velli í úrslitaleik mótsins, 29:24. Ragnar skoraði 10 mörk fyrir FH, en flest mörk KR-inga skoruðu Þórir 9, Reynir 6 og Hörður 5. Hin tvö liðin sem tóku þátt í mótinu voru úrvalslið ÍR/Valur og úrvalslið HKRR (Fram, Ármann, Þróttur og Afturelding).

  25 leikmenn valdir til æfinga

 Eftir „úrtökumótið“ voru 25 leikmenn valdir til samæfinga og þeir komu saman á fund 30. desember 1957, þar sem farið var yfir æfingadagskrá fyrir HM. Æfingar hófust í byrjun janúar og var að mestu æft að Hálogalandi og í íþróttahúsi KR. 

 Landsliðshópurinn var þannig skipaður:

 ÍR: Gunnlaugur Hjálmarsson og Hermann Samúelsson.

 Valur: Valur Benediktsson og Geir Hjartarson.

 Fram: Guðjón Jónsson, Karl G. Benediktsson og Gunnar Gunnarsson, markvörður. 

 Ármann: Kristinn Karlsson.

 FH: Kristófer Magnússon, markvörður, Sverrir Jónsson, Einar Sigurðsson, Hörður Jónsson, Birgir Björnsson, Bergþór Jónsson, Ólafur Thorlacius, Pétur Antonsson og Ragnar Jónsson.

 KR: Guðjón Ólafsson, markvörður, Þórir Þorsteinsson, Hörður Felixson, Karl Jóhannsson, Reynir Ólafsson, Bergur Adolfsson, Stefán Stefánsson og Pétur Stefánsson.

 Það urðu þó nokkrar umræður um landsliðshópinn og voru skiptar skoðanir um valið, eins og alltaf. Atli Steinarsson, Morgunblaðinu, skrifaði: „Ýmissa manna er hafa sýnt mjög góða frammistöðu er saknað í þessum hóp. Má þar til nefna Heinz Steinmann, KR, Þorgeir Þorgeirsson, ÍR og Halldór Lárusson, Aftureldingu, svo einhverjir séu nefndir.“

 Þá vakti einnig athygli að Hjalti Einarsson, markvörður úr FH, var ekki í hópnum, en hann hafði leikið vel með FH-liðinu.

 Þeir Grímar og Sigurður sáu algjörlega um allt sem viðkom landsliðinu. Þeir réðu Hallstein Hinriksson, þjálfara FH, sem landsliðsþjálfara og fengu Benedikt Jakobsson til að sjá um þolæfingar.

 Árni Árnason, formaður HSÍ, sá að mestu einn um aðra hluti í kringum landsliðið og ferðina á HM. 

 Tveir boltar, inniskór og flauta

 Þá var ekki æft í stórum íþróttasölum eða farið til útlanda til að leika æfingaleiki og til að æfa. Íslendingar voru þekktir fyrir sín þrumuskot, en það var lítið um skotæfingar. „Við æfðum einu sinni í viku og lítið var um skotæfingar þar sem aðeins tveir boltar voru á æfingum. Það voru ekki til fleiri boltar. Hallsteinn þjálfari, kom með boltana í tösku – ásamt inniskóm sínum og flautu. Þetta var allt sem við höfðum,“ sagði Ragnar Jónsson eitt sinn við pistlahöfund, en hann eignaðist bolta um þetta leyti og þótti mikil búbót þegar hann kom með þriðja boltann á æfingar.

Landsliðið sem lék fyrsta leikinn á HM 1958 í Magdeburg. Birgir Björnsson, Guðjón Ólafsson, Kristófer Magnússon, Þórir Þorsteinsson, Reynir Ólafsson, Gunnlaugur Hjálmarsson, Hermann Samúelsson, Einar Sigurðsson, Ragnar Jónsson, Karl Jóhannsson og Bergþór Jónsson. Mynd/Einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Flottir voru strákarnir

 Árni, formaður HSÍ, sá til þess að fyrstu landsliðsbúningar HSÍ voru keyptir fyrir ferðina á HM. Hvítar peysur og bláar buxur og svo varabúningur, bláar peysur og hvítar buxur. Þá fengu leikmenn nýja æfingagalla og nýja hvíta íþróttaskó. Flottir áttu þeir að vera strákarnir okkar.

 Mikill kostnaður 

 Íslendingar urðu að greiða ferðakostnað landsliðsins til Kaupmannahafnar – 16 leikmenn, þjálfara og 2 manna fararstjórnar. Þegar þangað var komið, greiddu Austur-Þjóðverjarnir ferðakostnað til Berlínar, dvöl og ferðina aftur til Hamborgar. 

Það var ljóst að leikmenn yrðu að greiða sjálfir hluta af ferðakostnaði til Austur-Þýskalands, Danmerkur og Noregs. Nýstofnað handknattleikssamband hafði ekki yfir að ráða miklu fjármagni, en á fundi HSÍ með blaðamönnum eftir að æfingahópurinn var tilkynntur, var sagt að kostnaðurinn við ferðina væri 80—85 þúsund krónur, þrátt fyrir það að Þjóðverjar borguðu fyrir 19 manna hóp, ferðir og uppihald eftir að hópurinn var kominn til Kaupmannahafnar á leiðinni til Berlínar og þar til hópurinn hélt heim á leið frá Hamborg.

 Sagt var frá ýmsun fjáröflunarleiðum og þá kom fram að hver maður, sem utan færi greiddi 1.000 krónur í ferðasjóð. 

 Fyrir utan fjáröflunar leik FH og KR og svo úrtökumótið að Hálogalandi, efndi HSÍ til leikfangahappdrættis, þar sem á boðstólum voru 25 glæsileg leikföng.

 Þá fékk HSÍ styrk frá Reykjavíkurbæ, Hafnarfjarðabæ og Íþróttasambandi Íslands. Fjáröflunanar gáfu allar eitthvað í aðra hönd og tryggði að ferðin á HM væri farin.

Ásbjörn Sigurjónsson á Álafossi, Þórir Þorsteinsson og Hallsteinn Hinriksson, landsliðsþjálfari, ræða málin í Magdeburg.

 Þeir voru valdir

  Sextán leikmenn voru valdir í byrjun febrúar til að taka þátt í HM:

FH: Kristófer, markvörður, Birgir, Einar, Bergþór, Hörður, Ragnar og Sverrir.

KR: Guðjón, markvörður, Reynir, Þórir og Karl.

ÍR: Gunnlaugur og Hermann.

Fram: Karl G. Benediktsson.

Valur: Valur Benediktsson.

Ármann: Kristinn Karlsson.

 Fyrir utan leikmennina fóru út Hallsteinn Hinriksson, þjálfari, Ásbjörn Sigurjónsson og Sigurður G. Norðdhal, fararstjórar. Auk þess buðu A-Þjóðverjar formönnum allra sérsambandanna sem áttu lið á HM, auk stjórn alþjóða handknattleikssambandsins.

 Íslenski hópurinn fékk allar ferðir og uppihald sér að kostnaðarlausu, nema Árni Árnason, formaður HSÍ, sem varð að greiða allar ferðir innan Þýskalands og uppihald utan Berlínar sjálfur, þar sem hans boð var bundið við Berlín.

 Landsliðsnefndin (Sigurður G. Norðdahl og Grímar Jónsson) var ekki sammála um sextánda leikmann hópsins, en annar nefndarmaður valdi Guðjón Jónsson, Fram, en hinn Kristinn Karlsson, Ármanni.

 Það var stjórn HSÍ og landsliðsþjálfarinn, Hallsteinn Hinriksson, sem úrskurðuðu að Kristinn yrði sextándi maðurinn.

 Sagði í bréfi HSÍ vegna valsins, að það hafi verið á þennan veg vegna þess að HKRR hafði sent HSÍ bréf og óskað eftir því að ráðið fengi fulltrúa í fararstjórn. Ákvað því stjórn HSÍ að velja Kristinn, sem ætti sæti í varastjórn HKRR. Auk þess að vera leikmaður, yrði hann varamaður í fararstjórn ásamt Karli G. Benediktssyni.

 HKRR var ekki ánægt með að HSÍ hafi valið Kristinn í fararstjórn, án þess að samband var haft við stjórn HKRR. Spunnust út af þessu all miklar umræður, er enduðu með því að HSÍ bað HKRR skriflegar afsökunar á þessu frumhlaupi sínu.

 Árni, formaður HSÍ, tilkynnti að Birgir Björnsson yrði fyrsti fyrirliði, en Karl Jóhannsson ef Birgir væri ekki á leikvelli. Þjálfari liðsins myndi sjá um liðsstjórn og innáskiptingar. Tilkynnt var að þeir sem sæju um að velja liðið fyrir hvern leik, uppstillingarnefnd, væri skipuð Hallsteini, Sigurði og fyrirliða liðsins hverju sinni. 

 Það kom fram á blaðamannafundinum að menn voru ekki á eitt sáttir við landsliðshópinn, að leikmenn eins og Guðjón Jónsson og Hörður Felixson, fyrirliði KR, væru ekki valdir og þá væri djarft að fara aðeins með tvo markverði.

 Ástæðan fyrir því að Hörður var ekki valinn, var sögð að hann væri meiddur og þá hafi hann ekki sótt æfingar nægilega vel. Menn voru ekki sáttir með þessa skýringu og þá var bent á að fyrst að ágreiningur hafi verið um sextánda manninn, þá hefði mátt leysa þann ágreining með því að velja þriðja markvörðinn.

 Þá kom það fram á fundinum að Ragnar Jónsson, stórskytta FH, myndi taka það hlutverk að sér, að vera þriðji markvörðurinn!

 Frímann Gunnlaugsson, þjálfari meistara KR 1958, var ósáttur með að þriðji markvörðurinn var ekki valinn og að landsliðsnefndin hafði ekki neitt tillit tekið til frammistöðu leikmanna í leik landsliðsins og „pressuliðsins“. Frímann sagði að þrír landsliðsmenn hefðu ekki þá getu til að leika með landsliðinu.

 Hannes Þ. Sigurðsson, sem saknaði Harðar Felixsonar, sagði að samæfingar landsliðsins hafi byrjað alltof seint, þar sem tveir mánuðir nægja ekki, þó svo að einstaklingarnir séu í góðri þjálfun.

Gunnlaugur Hjálmarsson faðmar Guðjón Ólafsson, markvörð, eftir sigurinn á Rúmeníu. Aðrir á myndinni eru Kristófer Magnússon, Ragnar Jónsson og Birgir Björnsson. Karl G. Benediktsson er fyrir aftan Kristófer og Bergþór Jónsson fyrir aftan Gunnlaug. Mynd/Einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Töfðust vegna snjókomu

 Stóra stundin rann upp 26. febrúar en þá hélt landsliðshópurinn árla dags með flugvél Flugfélags Íslands til Kaupmannahafnar og þaðan átti að halda strax til A-Þýskalands. Á Kastrup-flugvellinum beið austur-þýsk flugvél eftir íslenska hópnum. Þegar hópurinn ætlaði að skipta um flugvél bárust þær fréttir frá Berlín að svo mikil snjókoma væri þar að ófært væri að lenda. Þá voru þeir möguleikar kannaðir að fara til Hamborgar og þaðan með lest til Magdeburg, sem tæki sex klukkustundir. Þegar fréttist að öruggt væri að flogið væri til Berlínar daginn eftir, var ákveðið að gista eina nótt í Kaupmannahöfn. Haldið var af stað kl. 10 morguninn 27. febrúar og komið til Berlínar um hádegi, eða aðeins sex klukkustundum fyrir fyrsta leikinn; gegn Tékkum. Það voru svefn litlir og þreyttir landsliðsmenn sem komu til Berlínar.

 Í flugstöðvarbyggingunni var tekið á móti landsliðsmönnum með blómum. Þar hittu þeir fjóra ferðafélaga, sem yrðu með landsliðshópnum næstu 12 dagana; frú Helgu Maltry, túlk og Reinhard Linke, fulltrúa austur-þýska handknattleikssambandsins, sem aðstoðaði hópinn. Þar voru einnig tveir hressir bílstjórar, Heins og Werner, sem sáu um að aka landsliðinu um í stórri langferðabifreið.

 Þegar landsliðshópurinn sat að snæðingi í flughöfninni áður en haldið var til Magdeburgar, hringdi Árni, formaður HSÍ, sem var staddur í Berlín og bar fram þá ósk austur þýska sambandsins, að einn úr hópnum yrði eftir í Berlín, til að bera íslenska fánann í setningarathöfn HM. Fyrir valinu var Kristinn Karlsson.

 Landsliðshópurinn kom til Magdeburgar eftir akstur sem tók þrjá og hálfan tíma. Leikmenn lögðust til hvíldar í eina klukkustund til að ná úr sér ferðaþreytunni fyrir leikinn gegn Tékkum, sem fór fram í Hermann Giesler Halle kl. 19.

 Þreyta tók sinn toll

 Setningarathöfn í Magdeburg tók 45 mín. Leikmenn Íslands, Tékkóslóvakíu, Ungverjalands og Rúmeníu gengu inn á völlinn og voru þjóðsöngvar leiknir og stutt ávarp flutt.

 Gunnlaugur Hjálmarsson byrjaði á því að skora fyrsta mark Íslands, en Tékkar svöruðu með átta mörkum, 1:8, og höfðu yfir í leikhléi 9:15. Það var greinilegt að ferðaþreyta sat Íslendingum og nýttu Tékkar sér það með því skora mörg mörk eftir hraðaupphlaup. Íslendingar urðu að játa sig sigraða, 17:27.

 Mörk Íslands skoruðu Gunnlaugur 7, Ragnar 5, Birgir 3, Hermann 1 og Karl Jóhannsson 1.

 Blaðið Neues Deutschland sagði að Íslendingar hefðu vakið athygli gegn Tékkum með góðum leik, þó svo að þeir væru nýkomnir úr langferð frá Íslandi og fóru beint úr bílnum sem fluttu þá frá Berlín; út á leikvöllinn. 

 Áhorfendur fögnuðu Íslendingum svo áberandi, að það vakti mikla athygli. Þeir höfðu frétt af hremmingum strákana frá hinu fámennu eyju í norðri, sem lögðu svo hart að sér til að koma og vera með.

 * Rúmenar og Ungverjar gerðu jafntefli, 16:16.

Guðjón Ólafsson varði vel í leiknum gegn Rúmeníu.

 Glæsilegur sigur á Rúmeníu

 Strákarnir léku sinn næsta leik gegn Rúmeníu 1. mars. Fyrir leikinn voru Rúmenar ákveðnir að reyna „að stela“ áhorfendum frá Íslendingum. Þeir létu tvo af leikmönnum sínum; með fangið fullt af rósum, ganga meðfram áhorfendapöllunum og köstuðu þeir rauðum rósum til áhorfenda í þeim tilgangi að fá þá á sitt band. Það dugði ekki. Íslendingar byrjuðu leikinn strax með miklum látum og var stemningin gífurleg undir hvatningarhrópum áhorfenda. Strákarnir okkar voru þeirra menn!

 Leikmennirnir léku mjög sterkan varnarleik og fór Guðjón Ólafsson á kostum í markinu; varði mjög vel við mikla hrifningu áhorfenda. Þegar upp var staðið var sigur Íslands í höfn, 13:11. Fyrsti landsliðssigur Íslands og það gegn sterku liði Rúmena, sem átti eftir að vera nær ósigrandi næstu árin. Mótlætið fór í taugarnar á Rúmenum, sem sýndu fantaskap og illsku er þeir reyndu að brjóta vörn Íslands á bak aftur. Það dugði ekki og 4.000 áhorfendur fögnuðu Íslendingum, sem svifu um á rauðum rósum, innilega.

 Íslenska liðið var þannig skipað: Guðjón og Kristófer, markverðir. Ragnar 5, Gunnlaugur 4, Birgir 2, Bergþór 1, Einar 1, Hörður, Karl G. Benediktsson, Hermann og Karl Jóhannsson. 

 * Tékkar unnu Ungverja 26:11.

 Markvörður Ungverja erfiður

 Íslendingar tefldu fram óbreyttu liði frá leiknum við Rúmena gegn Ungverjum daginn eftir, 2. mars. Sigur eða jafntefli myndi tryggja Íslandi áfram í milliriðil. Þá kom í ljós að leikmenn Íslands voru orðnir þreyttir og náðu ekki einbeitingu í skotum. Ungverjar höfðu hvílt nokkra leikmenn í leiknum gegn Tékkum; fyrir leikinn gegn Íslendingum. Það hafði mikið að segja og einnig að markvörður Ungverja fór á kostum og náði með frábærri markvörslu að slá Íslendinga út af laginu. Ungverjar voru yfir þegar flautað var til leikhlés, 11:7. Í seinni hálfleik fóru Íslendingar að leika maður á mann vörn og var mikill handagangur í öskjunni. Þrátt fyrir mikinn stuðning áhorfenda náðu þeir ekki að snúa leiknum sér í vil og máttu þola tap, 16:19. Íslensku leikmennirnir voru útkeyrðir, nokkrir meiddir og marðir.

 Mörkin skoruðu Birgir 6, Gunnlaugur 5, Ragnar 3, Einar 1 og Karl Jóhannsson 1.

Ragnar fór í markið

 Ragnar fór í markið í leiknum gegn Ungverjum, þegar Guðjón var rekinn af leikvelli fyrir að hlaupa út á völl og sparka knettinum upp í áhorfendastúku. A-þýski dómarinn Heinz Singer var ekki ánægður með það. Ragnar varði fjögur skot á meðan hann stóð vaktina á milli stanganna.

 * Tékkar unnu Rúmena 21:13. Tékkar 6 stig og Ungverjar 3 stig, komust áfram í milliriðil, en Ísland, 2 stig og Rúmenía 1 stig, voru úr leik.

Karl G. Benediktsson í leiknum gegn Rúmeníu. Birgir Björnsson fylgist með.

 Þeir léku á HM

 Þrettán leikmenn tóku þátt í HM-leikjunum þremur. Þeir voru; leikir og mörk. Kristófer 3, Guðjón 3, markverðir. Gunnlaugur 3/16, Ragnar 3/13, Birgir, fyrirliði 3/11, Einar 3/2, Karl Jóhannsson 3/2, Bergþór 3/1, Hermann 3/1, Hörður 2, Karl G. Benediktsson 2, Reynir 1 og Þórir 1. 

Leikið í Dresden á heimleið

 * Áður en farið var frá A-Þýskalandi fór íslenski hópurinn í skoðunarferðir til Leipzig, Dresden og Berlínar. Leikinn var einn gestaleikur í Dresden, 25:25, en hætt var við að leika í Hannover, eins og fyrirhugað var. Ragnar skoraði 7 mörk og Birgir sex gegn Dresden, Einar 4, Gunnlaugur 3, Reynir 2, Valur 2, Þórir 1, Kristinn, Karl G. Benediktsson, Guðjón og Kristófer.

Brugðið á leik. Birgir Björnsson, Gunnlaugur Hjálmarsson og Valur Benediktsson.

 Svíar heimsmeistarar

* Tékkóslóvakía, Ungverjaland, Þýskaland og Noregur léku saman í milliriðli. Tékkar fengu 6 stig, Þjóðverjar 4, Norðmenn 2 og Ungverjar ekkert.

* Svíþjóð, Danmörk, Pólland og Júgóslavía léku saman í milliriðli. Svíar fengu 6 stig, Danir 4, Pólverjar 2 og Júgóslavar ekkert.

  Svíar vörðu heimsmeistaratitil sinn með því að leggja Tékka í úrslitaleik.

1. sæti: Svíþjóð – Tékkóslóvakía    22:12

3. sæti: Þýskaland – Danmörk        16:13

5. sæti: Pólland – Noregur          20:18

7. sæti: Ungverjaland – Júgóslavía  24:16

* Síðan komu: 9: Frakkland, 10: Ísland, 11: Austurríki, 12: Spánn, 13: Rúmenía, 14. Finnland, 15. Brasilía og 16: Lúxemborg.

 Fengu ekki fisk í Kaupmannahöfn

 Laugardaginn 8. mars hélt hópurinn frá Berlín í flugi til Hamborgar, þar sem gist var eina nótt áður en haldið var til Kaupmannahafnar á sunnudegi. Þegar halda átti af stað kom upp vélarbilun í flugvélinni og varð landsliðshópurinn að bíða í sex klukkustundir á flugvellinum.

  Danska blaðið BT sagði frá því að íslensku landsliðsmennirnir hefðu ekki fengið steikta rauðsprettu og mjólkurglas, sem þeir áttu von á við komuna til Kaupmannahafnar. „Landsliðsmennirnir hlökkuðu mikið til, því að þeir gerðu ráð fyrir að fá þar þjóðarrétt sinn, fisk. En því miður komu þeir of seint, flugvél þeirra seinkaði í Hamborg og hótelið sem þeir bjuggu á í Kaupmannahöfn, gat ekki náð í fisk í tæka tíð. „En á morgun fáum við steikta rauðspettu,“ sagði Ásbjörn Sigurjónsson, fararstjóri, og við hlökkum mikið til þess. Það verður líka gott að fá sér mjólkurglas með.”

 „Þó að Íslendingum hafi seinkað um 6—7 tíma, báðu þeir mig strax og þeir komu að útvega sér æfingastað,“ sagði Kaj Níelsen frá handknattleikssambandi Kaupmannahafnar. „Það var jafn erfitt og að fá  fiskinn!”

 Landsliðið lék vináttuleik gegn Kaupmannahafnarúrvali þriðjudaginn 11. mars. Ákveðið var að hvíla nokkra lykilmenn fyrir landsleikinn gegn Noregi í Ósló daginn eftir. Kaupmannahafnarúrvalið vann öruggan sigur, 26:14. Mörk landsliðsins skoruðu Gunnlaugur 10, Sverrir 2, Reynir og Þórir eitt hvor.

Leikið í Ósló

 Morguninn eftir var haldið snemma til Óslóar með flugvél og leikinn landsleikur gegn Noregi um kvöldið í Nordstrandhallen. Norðmenn gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik, er þeir skoruðu 9 mörk í röð og komust yfir 16:7 í fyrri hálfleik og þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik, 18:7. Íslendingar náðu að minnka muninn í þrjú mörk áður en flautað var til leiksloka, 25:22.

 Mörkin skoruðu Birgir 7, Ragnar 5, Gunnlaugur 5, Einar 4 og Hörður eitt.

 Landsliðshópurinn hélt heim á leið 13. mars. Flogið var frá Ósló til Kaupmannahafnar og þaðan til Reykjavíkur. HM-ævintýrinu var lokið. Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, tók á móti landsliðshópnum á Reykjavíkurflugvelli og bauð hópinn velkominn heim.

 * Þessari ferð landsliðsins var lengi minnst, sem einstakt afrek HSÍ á fyrsta starfsári sínu.

 Á meðan heimsmeistarakeppnin stóð yfir höfðu margir samband við fararstjóra Íslands og óskuðu eftir samskiptum. Það var erfitt að taka á móti landsliðum þegar engin aðstaða á Íslandi væri í boði, með 22×44 m leikvelli.

  Hvað gerist í Svíþjóð?

 Nú er að sjá hvað landsliðsmenn Íslands ná að afreka á HM í Svíþjóð og Póllandi 2023, undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Besti árangur Íslands á HM var í Vestur-Þýskalandi 1961, sjötta sætið, þar sem Gunnlaugur Hjálmarsson var valinn í heimsliðið, og síðan í Kumamoto í Japan 1997, þar sem geysilega öflugt lið Íslands tapaði aðeins einum leik og hafnaði í fimmta sæti. Pislahöfundar var þar og stóðu leikmenn sig frábærlega. Valdimar Grímsson var valinn í sjö manna lið mótsins.

 Ég mun fljótlega stinga niður penna, ef Strákarnir okkar verða í stuði og skemmta okkur sem heima sitjum.

Tak så mycket,

På återseende!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -