- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kolstad sleppur væntanlega fyrir horn

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Norska meistaraliðið Kolstad mun að öllum líkindum halda keppnisrétti sínum í Meistaradeild karla í handknattleik þrátt fyrir fregnir af fjárhagskröggum og lækkun launa um 30 af 100. Tíðindi sem komu Handknattleikssambandi Evrópu í opna skjöldu og virðast á skjön við upplýsingar sem félagið sendi inn með umsókn um boðskort (wild card) í Meistaradeildina snemma í júní.

Telja sig geta mætt kröfum

EHF tilkynnti í dag að Kolstad hafi svarað fyrirspurn sambandsins um stöðu mála og fullyrði að þrátt fyrir allt geti félagið staðið við fjárhagslegar kröfur sem gerðar eru til félaga sem taka þátt í Meistaradeildinni.

EHF hefur sent svar Kolstad til lögfræðideildar sinnar þar sem farið verði yfir hvort svarið mæti kröfum sem gerðar eru til þátttökuliða. Þar með er ekki alveg útilokað að keppnisleyfi félagsins verði afturkallað.


Þegar Kolstad óskaði í fyrri hluta júní eftir sæti í Meistaradeildinni voru umbeðin gögn um fjárhagslega stöðu send með umsókninni. Gögnin voru staðfest af norska handknattleikssambandinu, segir í tilkynningu EHF.

Tíðindin komu EHF á óvart

Í ljósi þess hafi fregnir að undanförnu af fjárhagserfiðleikum og launalækkunum komið á óvart. EHF hafi fyrst heyrt af erfiðleikunum í fréttum á dögunum. Strax hafi verið brugðist við og félagið og norska handknattleikssambandið verið krafin svara um stöðuna.

Kröfur verða hertar

Hver sem niðurstaða lögmanna verður hefur EHF í hyggju að herða kröfur til félaga í leyfiskerfi Meistaradeildar. Verða kröfurnar ræddar á fundi með félögum sem haldinn verður í október.

Tengdar greinar:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -