Matea Lonac markvörður KA/Þórs og Einar Rafn Eiðsson leikmaður KA voru valin bestu leikmenn liða sinna á lokahóf handknattleiksdeildar KA og KA/Þór fór fram á miðvikudaginn. Skarphéðinn Ívar Einarsson og Bergrós Ásta Guðmundsdóttir voru valin efnilegust hjá sömu liðum og Haraldur Bolli Heimisson og Anna Þyrí Halldórsdóttir bestu liðsfélagarnir.
Fimm leikmenn voru heiðraðir fyrir að spila 100 leiki fyrir félagið: Patrekur Stefánsson, Arnór Ísak Haddsson og Daði Jónsson karla megin en kvennamegin voru það Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir og Matea Lonac.
Rut Arnfjörð Jónsdóttur og Ólafi Gústafssyni var þakkað sérstaklega fyrir sitt framlag til félaganna á undanförnum árum en þau kveðja að þessu tímabili loknu og flytja suður eftir fjögur ár á Akureyri. Sömu sögu má segja um Telmu Ósk Þórhallsdóttur og Skarphéðinn Ívar Einarsson. Þau róa einnig á ný mið en Haukar hafa boðað komu Skarphéðins Ívars til félagsins fyrir næsta keppnistímabil.
Kvödd með blómum
Arna Valgerður Erlingsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson, fráfarandi þjálfarar KA/Þórs, fengu blómvönd fyrir sín störf en þau láta af störfum eins og fram hefur komið. Sömuleiðis fékk Guðlaugur Arnarsson viðurkenningu fyrir sín störf en hann lætur af störfum sem aðstoðarþjálfari KA eftir þetta tímabil.
Sjá einnig:
Lokahóf: ÍR-ingar settu punkt aftan við tímabilið