Skarð er fyrir skildi hjá nýliðum Aftureldingar í Olísdeild kvenna. Sylvía Björt Blöndal, markadrottning Grill 66-deildar kvenna á síðustu leiktíð er flutt til Danmerkur þar sem hún leggur stund á meistaranám við háskóla.
Sylvía Björt gekk til liðs við Aftureldingu fyrir tveimur árum frá FH og sló strax í gegn og varð næst markahæst í Olísdeildinni leiktíðina 2021/2022. Sylvía Björt tók slaginn með Aftureldingu í Grill 66-deildinni á síðustu leiktíð og hélt áfram að láta knöttinn syngja í netmöskvunum. Alls skoraði hún 157 mörk í Grill 66-deildinni með 157 mörk í 18 leikjum, 27 mörkum fleiri en FH-ingurinn Hildur Guðjónsdóttir.
„Vinkona mín, Katrín Helga Davíðsdóttir, lék og leikur með Aftureldingu. Við vorum saman í MR. Hún sagði mér að það vantaði fleiri leikmenn í Aftureldingarliðið svo ég sló til. Ég sé ekki eftir því,“ sagði Sylvía Björt í samtali við handbolta.is í vor um tilurð þess að hún gekk til liðs við Aftureldingu með góðum árangri.
Eftir því sem handbolti.is kemst næst er óvíst að Sylvía Björt leiki handknattleik samhliða náminu í Danmörku. M.a. setja há félagaskiptagjöld á milli landa strik í reikninginn.
Afturelding heimsækir ÍR í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna í Skógarsel á laugardaginn. Flautað verður til leiks klukkan 13.30.
Konur – helstu félagaskipti 2023