- Auglýsing -
- Þýski hornamaðurinn Tim Hornke tekur ekki þátt í fleiri leikjum á Ólympíuleikunum í París. Hann meiddist eftir 55 sekúndna leik gegn Svíum í fyrradag. Sin í annarri ilinni tognaði illa. Eftir skoðun í gærmorgun var úrskurðað að Hornke verður ekki leikklár það sem eftir er leikanna. Hann fer þá væntanlega heim til Magdeburg.
- Alfreð Gíslason kallaði Rune Dahmke inn í 14 manna hópinn í stað Hornke. Dahmke var einn þriggja varamanna sem fóru með þýska liðinu til Parísar. Hann var mættur galvaskur til leiks snemma í morgun með þýska landsliðinu gegn japanska landsliðinu þegar flautað var til leiks klukkan 7 að íslenskum tíma.
- Þess má geta til fróðleiks að Dahmke er unnusti Stine Oftedal leikmanns norska kvennalandsliðsins.
- Max Darj var skipt úr 14 manna hópi sænska landsliðsins í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í gær vegna meiðsla. Í hans stað kemur Felix Möller og verður með þegar Svíar mæta Spánverjum í dag í annarri umferð A-riðils. Hægt verður að fylgjast með leiknum á RÚV2. Vonir standa til þess að Darj geti komið inn í sænska landsliðið á nýjan leik þegar á keppnina líður.
- Króatíski handknattleiksmaðurinn Luka Stepancic hefur samið við Al Arabi í Kúveit. Stepancic hefur verið án samnings eftir að tímabili hans hjá Pick Szeged lauk í vor.
- Kai Johannsen, sem verið hefur liðsstjóri danska karlalandsliðsins síðustu tvo áratugi er ekki með landsliðinu á Ólympíuleikunum. Hann er veiktist skömmu fyrir leikana og varð þar af leiðandi eftir heima.
- Danska landsliðið mætir Egyptum klukkan 12 í dag og verður fróðlegt að sjá hvort því tekst að halda uppteknum hætti eftir frábæran síðari hálfleik gegn Frökkum í fyrrakvöld. Egyptar unnu Ungverja á sannfærandi hátt í fyrstu umferð, 35:32.
- Auglýsing -