- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Myndskeið: Flautumark Dags Árna gegn Noregi

Akureyringar í U17 ára landsliðinu, f.v.: Heimir Örn Árnason þjálfari, Jens Bragi Bergþórsson, Óskar Þórarinsson, Magnús Dagur Jónatansson, Hugi Elmarsson og Dagur Árni Heimisson. Mynd/Guðmundur Svansson
- Auglýsing -

Eins og kom fram á handbolti.is í gær þá skoraði Dagur Árni Heimisson sigurmark Íslands á síðustu sekúndu úrslitaleiks Íslands og Noregs um 5. sæti í handknattleikskeppni 17 ára landsliða á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Maribor í Slóveníu, 32:31. Boltinn söng í netmöskvunum í þann mund sem leiktíminn rann út. Norðmenn höfðu jafnað metin úr vítakasti sex sekúndum áður, 31:31.


Hér fyrir neðan er myndskeið af sigurmarki Dags Árna og gríðarlegum og skiljanlegum fögnuði sem braust út í kjölfarið.
Íslensku piltarnir unnu fjóra leiki á mótinu í Maribor og töpuðu aðeins einum, fyrir þýska landsliðinu.

Unnu 13 af 17 leikjum

Með þessu marki Akureyringsins unga lauk öðru alþjóðlega mótinu í þessum mánuði hjá U17 ára landsliði Íslands en í upphafi mánaðarins hafnaði liðið einnig í 5. sæti á Opna Evrópumótinu sem haldið var í Gautaborg. Alls voru leikir liðsins 17 í mánuðinum, þar af unnust 13.

Efri röð f.v.: Gísli Rúnar Guðmundsson flokkstjóri, Stefán Árnason þjálfari, Ágúst Guðmundsson, Jens Bragi Bergþórsson, Daníel Bæring Grétarsson, Max Emil Stenlund, Jökull Helgi Einarsson, Antonie Óskar Pantano, Dagur Árni Heimisson, Aron Daði Stefánsson, Heimir Örn Árnason þjálfari, Unnar Arnarsson sjúkraþjálfari. Neðri röð f.v.: Bernard Kristján Owusu Darkoh, Stefán Magni Hjartarson, Sigurjón Bragi Atlason, Óskar Þórarinsson, Hugi Elmarsson, Jónas Karl Gunnlaugsson, Magnús Dagur Jónatansson. Mynd/Aðsend

Annað árið í röð

Þýskaland vann mótið annað árið í röð og eins og í fyrra með sigri á Slóvenum í úrslitaleik, 32:25. Ungverjaland vann Króatíu í viðureigninni um bronsverðlaun. Ísland varð í fimmta sæti, Noregur í sjötta, Portúgal í sjöunda sæti og Svartfellingar ráku lestina í áttunda sæti.


Frakkland vann gullverðlaun í handknattleikskeppni stúlkna, 17 og yngri. Franska liðið vann rúmenska landsliðið, 32:27, í úrslitaleik. Pólland hlaut bronsverðlaun með sigri á Hollandi, 26:17. Þar á eftir komu Slóvenía, Tékklandi, Spánn og Noregur.

Ekki verður slegið slöku við

Keppnistímabili yngri landsliða Íslands í handknattleik er ekki lokið. Á miðvikudaginn hefst heimsmeistaramót 19 ára landsliða karla í Króatíu. Ísland teflir fram liði á mótinu. Daginn eftir, fimmtudaginn 3. ágúst, verður flautað til leiks á Evrópumóti 17 ára landsliða kvenna. Ísland sendir einnig lið til leika á EM sem fram fer í Podgorica í Svartfjallalandi.

Handbolti.is ætlar að fylgjast grannt með framvindu beggja íslensku liðanna á mótunum tveimur sem standa yfir fram í miðjan ágúst.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -