Eins og kom fram á handbolti.is í gær þá skoraði Dagur Árni Heimisson sigurmark Íslands á síðustu sekúndu úrslitaleiks Íslands og Noregs um 5. sæti í handknattleikskeppni 17 ára landsliða á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Maribor í Slóveníu, 32:31. Boltinn söng í netmöskvunum í þann mund sem leiktíminn rann út. Norðmenn höfðu jafnað metin úr vítakasti sex sekúndum áður, 31:31.
Hér fyrir neðan er myndskeið af sigurmarki Dags Árna og gríðarlegum og skiljanlegum fögnuði sem braust út í kjölfarið.
Íslensku piltarnir unnu fjóra leiki á mótinu í Maribor og töpuðu aðeins einum, fyrir þýska landsliðinu.
Flautumark Dags Árna geggjað. Ekki eru dansspor hins sigurreifa Stefáns Árnasonar mikið síðri tilþrif í lok myndbands. pic.twitter.com/SPoPdlLCjt
— Davíð Már (@DavidMarKrist) July 29, 2023
Unnu 13 af 17 leikjum
Með þessu marki Akureyringsins unga lauk öðru alþjóðlega mótinu í þessum mánuði hjá U17 ára landsliði Íslands en í upphafi mánaðarins hafnaði liðið einnig í 5. sæti á Opna Evrópumótinu sem haldið var í Gautaborg. Alls voru leikir liðsins 17 í mánuðinum, þar af unnust 13.
Annað árið í röð
Þýskaland vann mótið annað árið í röð og eins og í fyrra með sigri á Slóvenum í úrslitaleik, 32:25. Ungverjaland vann Króatíu í viðureigninni um bronsverðlaun. Ísland varð í fimmta sæti, Noregur í sjötta, Portúgal í sjöunda sæti og Svartfellingar ráku lestina í áttunda sæti.
Frakkland vann gullverðlaun í handknattleikskeppni stúlkna, 17 og yngri. Franska liðið vann rúmenska landsliðið, 32:27, í úrslitaleik. Pólland hlaut bronsverðlaun með sigri á Hollandi, 26:17. Þar á eftir komu Slóvenía, Tékklandi, Spánn og Noregur.
Ekki verður slegið slöku við
Keppnistímabili yngri landsliða Íslands í handknattleik er ekki lokið. Á miðvikudaginn hefst heimsmeistaramót 19 ára landsliða karla í Króatíu. Ísland teflir fram liði á mótinu. Daginn eftir, fimmtudaginn 3. ágúst, verður flautað til leiks á Evrópumóti 17 ára landsliða kvenna. Ísland sendir einnig lið til leika á EM sem fram fer í Podgorica í Svartfjallalandi.
Handbolti.is ætlar að fylgjast grannt með framvindu beggja íslensku liðanna á mótunum tveimur sem standa yfir fram í miðjan ágúst.