Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur hjá Sporting með níu mörk þegar liðið vann Dinamo Búkarest eftir mikla baráttu á lokasprettinum, 35:33, í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik í kvöld. Leikið var í Lissabon. Sigurinn tryggði Sporting áfram annað sæti fjórða riðils Evrópudeildarinnar en sextán liða úrslit hófust í kvöld með átta leikjum í fjórum riðlum.
Leikmenn Dinamo virtust ekkert ætla að gefa eftir í Lissabon í kvöld. Þeir voru með yfirhöndina lengst af í síðari hálfleik. Á síðustu 10 mínútunum tókst Orra Frey og félögum að komast yfir og tryggja sér bæði stigin af miklu harðfylgi.
Incredible atmosphere in Lisbon 🇵🇹, a huge win of @SCPModalidades is also a huge celebration 🙏.#ehfel #elm #allin pic.twitter.com/OBuvRUtCH0
— EHF European League (@ehfel_official) February 13, 2024
Stórsigur hjá Teiti Erni
Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg í stórsigri á Bjerringbro/Silkeborg á heimavelli 38:28. Myndskeið með einu marka Teits Arnar er hér fyrir neðan. Flensburg og Kadetten eru efst í þriðja riðli með fjögur stig hvort.
𝗘𝗶𝗻𝗮𝗿𝘀𝘀𝗼𝗻 with the fast jump 🦘 and a faster shot 💪#ehfel #elm #allin pic.twitter.com/jE01vCn8Re
— EHF European League (@ehfel_official) February 13, 2024
Tap í Póllandi
Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir pólska liðinu Górnik Zabrze, 29:26, í Póllandi. Löwen var tveimur mörkum yfir í hálfleik. Harðskeyttir leikmenn pólska liðsins sneru við taflinu í síðari hálfleik. Löwen var yfir, 18:13, en missti þá dampinn og heimamenn skoruðu 14 mörk gegn fjórum, á rúmlega stundarfjórðungskafla.
Arnór Snær og Ýmir Örn skoruðu ekki mark í leiknum. Rhein-Neckar Löwen er í þriðja sæti 1. riðils á eftir Nantes og Hannover-Burgdorf.
Tryggvi í Króatíu
Tryggvi Þórisson og félagar í sænska meistaraliðinu Sävehöf töpuðu fyrir RK Nexe í Krótaíu í kvöld, 29:28. Sävehöf er í þriðja sæti 2. riðils með þrjú stig.
Evrópudeild karla – 16-liða úrslit – leikir og staðan
Fjórir fjögurra liða riðlar
Sextán liða úrslit Evrópudeildar karla eru leikin í fjórum fjögurra liða riðlum. Liðin taka með sér úrslit leikja úr riðlakeppni 32-liða úrslita. T.d. þá voru Hannover-Burgdorf og Górnik Zabrze saman í riðli í 32 liða úrslitum. Þau mætast ekki aftur þótt þau séu saman í riðli. Sömu sögu er að segja af Nantes og Rhein-Neckar Löwen sem einnig eru í riðli eitt.
Beint í átta liða úrslit
Leikið verður heima og að heiman, alls fjórar umferðir. Eftir það fara sigurlið hvers riðils beint áfram í átta liða úrslit. Liðin sem hafna í öðru og þriðja sæti mætast heima og heiman. Sem dæmi má nefna er að liðið sem hafnar í öðru sæti í riðli eitt mætir liðinu sem verður í þriðja sæti í riðli tvö. Samanlagður sigurvegari fer í átta liða úrslit.