„Það er góður kúltúr í þessum mannskap, að standa upp eftir rothögg. Það var vel unnið á þessum sólarhringum sem liðu milli leikja. Þetta er góður og vinnusamur hópur. Það fær enginn að vera með nema að vera vinnuhestur,“ segir Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins í samtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson fréttamann RÚV eftir að norska landsliðið reis upp eins og fuglinn Fönix og vann stórsigur á danska landsliðinu, 27:18, í annarri umferð handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í París í dag.
„Ég held að best sé að lifa einn sólarhring í einu og í hverjum leik að fara í hverja sókn fyrir sig, að fá fólkið til að vera hér og nú. Allir vilja ná þér fram í tímann eða aftur á bak. Það er mikið sálfræðilegt mál að vera bara til staðar í núinu,“ segir Þórir ennfremur.
Frammistaðan gegn Svíþjóð á fimmtudagskvöld einkenndist að einhverju leyti af taugaveiklun hjá norska landsliðinu, segir Þórir. „Eins og gerist þegar byrjað er á mótum. Við gáfum frá okkur tvö stig. Svíar eru góðir að taka þá möguleika sem bjóðast,“ segir Þórir Hergeirsson í fyrrgreindu viðtali við RÚV sem nálgast má hér.