- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Stelpurnar voru hreinlega stórkostlegar“ – dreymdi um að stela einum leik

Lið ÍR fagnar sæti í Olísdeildinni í vor eftir sigur á Selfossi í oddleik í umspili. Mynd/sunnlenska.is/Guðmundur Karl
- Auglýsing -

„Mér er eiginlega orðavant eftir þetta allt saman,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari kvennaliðs ÍR í handknattleik í samtali við handbolta.is í Sethöllinni á Selfossi í gær eftir að ÍR vann Selfoss, 30:27, í oddaleik í úrslitum umspils um sæti í Olísdeild kvenna á næstu leiktíð. Af þremur sigurleikjum, unnust tveir á heimavelli Selfoss.

Ekki eru nema þrjú ár síðan til stóð að leggja meistaraflokkslið kvenna niður hjá ÍR.

Hreint stórkostlegar

„Þvílík frammistaða hjá mögnuðum íþróttamönnum sem stóðu allt af sér bæði í þessum leik og í einvíginu í heild. Sama hvað gekk á þá var alltaf horft fram á veginn. Stelpurnar voru hreinlega stórkostlegar,“ sagði Sólveig Lára sem varð að sitja á stól við hliðarlínuna allan leikinn í gærkvöld og styðjast við hækjur í fögnuðinum eftir að hafa slitið hásin snemma í fjórðu viðureign liðanna í Skógarseli á sunnudaginn.

Myndskeið: Sigurgleði ÍR-inga í Sethöllinni í kvöld

„Ég er stolt af liðinu“

„Draumurinn fyrir þetta einvígi var ná jöfnum leikjum og kannski ná að stela einum leik. En að vinna þrjá leiki, þar af tvo á Selfossi, er langt framúr draumum okkar gegn frábæru liði Selfoss. Ég er stolt af liðinu,“ sagði Sólveig Lára og lesa mátti innilega gleði úr augum hennar þar sem hún sat að spjallaði við handbolta.is innan um vaskan hóp stuðningsmanna ÍR sem fylgdu liðinu í gegnum súrt og sætt frá upphafi til enda úrslitakeppninnar.

Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR. Mynd/ÍR

Breytingar á varnarleiknum

Sólveig Lára lagði línurnar fyrir leikinn ásamt aðstoðarmönnum sínum Sigfúsi Páli Sigfússyni og Arnari Frey Guðmundssyni.

„Við breyttum varnarleiknum. Komum með breyttar áherslur þar sem við þéttum vel inn á miðjuna. Það virtist koma Selfossliðinu í opna skjöldu. Þar með náðum við upp mikilli baráttu, trú og von á verkefnið sem var afar mikilvægt. Það skipti okkur miklu máli að öðlast trú á að við gætum staðið Selfossliðinu á sporði eftir tvo tapleiki í röð. Með góðri byrjun þá endurheimtu leikmenn vonina og stelpurnar sögðu hver við aðra, við getum þetta,“ sagði Sólveig Lára sem í vetur hefur þreytt frumraun sína sem þjálfari í meistaraflokki kvenna að loknum löngum og farsælum ferli sem leikmaður Stjörnunni. Fyrstu skrefin á handboltavellinum steig hún hinsvegar með ÍR.

Leikmenn ÍR ærðust af kæti þegar flautað var til leiksloka í gærkvöld og skal engan undra. Mynd/sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Létu ekki raska ró sinni

„Stelpurnar létu síðan ekkert raska ró sinni í síðari hálfleik þótt Selfossliðið nálgaðist og náði að jafna metin, sem er hreint magnað þar sem reynslan er ekki mikil, allra síst að leika úrslitaleik í þessari frábæru stemningu sem var hér í kvöld.“

Vantar stuðning – tökum við símtölum

Í þeirri óvæntu stöðu sem ÍR-liðið og Sólveig Lára eru komin í þarf að hugsa allar áætlanir fyrir næsta tímabil upp á nýtt.

„Sannarlega verðum við að velta fyrir okkur breyttum veruleika. Sama verður félagið allt að gera. Hér með vil ég nota tækifærið og auglýsa eftir þeim sem vilja styðja við bakið á þessum frábæru stelpum og við starfið.

Við verðum að fá inn styrktaraðila að borðinu því við erum á leið í allt annan pakka í Olísdeildinni en var í Grill 66-deildinni. Styrktaraðilar mega bara byrja strax að hringja. Ég og fleiri tökum glöð við símtölum,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested sem sér fram á annasamt sumar við undirbúning með ÍR-ingum auk endurhæfingar vegna slitinnar hásinar.

Handbolti.is fygldist með öllum fimm leikjum ÍR og Selfoss í textalýsingu og lét sig að sjálfsögðu ekki vanta á oddaleikinn í Sethöllinni í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -