Þegar herfylking Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara í handknattleik, er á leiðinni til Skánar í Svíþjóð, til að herja þar í heimsmeistarakeppninni í handknattleik, eru liðin 73 ár síðan Ísland lék sinn fyrsta landsleik – á Skáni, þar sem landsliðið mætti Svíum í Lundi 15. febrúar 1950 og tapaði 7:15.
Herfylking Guðmundar Þórðar hefur bækistöðvar í Kristianstad, en svo skemmtilega vill til að íslenskir handknattleiksmenn öttu kappi við sænska liðið IF Kristianstad í fyrsta leik sem íslenskt lið lék við erlent handknattleikslið fyrir 76 árum, 1947. Sænska liðið lék þá fjóra leiki í Reykjavík og má segja að Svíar hefðu tekið Íslendinga í kennslustund. Þá valdi stjórn Handknattleiksráðs Reykjavíkur, HKRR, úrvalslið til að leika tvo leiki við Svíana og má segja að það hafi verið um að ræða fyrsta vísi að landsliði Íslands. Kristianstad, sem kom hingað í boði Ármanns, var eitt af bestu liðum Svía og með liðinu léku fjórir sænskir landsliðsmenn.
Undir forystu ÍR-ingsins Sigurðar Magnússonar, formanns HKRR, voru þeir Grímar Jónsson, Val og Baldur Kristjónsson, íþróttakennari við Miðbæjarskólann, fengnir til að sjá um æfingar og velja leikmenn til verkefnisins í samráði við stjórn HKRR.
12 leikmenn voru valdir í úrvalslið HKRR, frá fimm félögum:
Valur: Stefán Hallgrímsson, markvörður, Karl Jónsson, aldursforseti – 36 ára, Sveinn Helgason, Jón Þórarinsson og Garðar Halldórsson.
Ármann: Skúli H. Norðdahl, Sigfús B. Einarsson, Kjartan Magnússon og Sigurður G. Norðdahl, fyrirliði.
Víkingur: Baldur Bergsteinsson og Bjarni Guðnason.
ÍR: Ingvi Þorsteinsson.
KR: Björn Vilmundarson.
Handknattleiksunnendur biðu spenntir eftir komu sænska liðsins og var eftirvænting mikil. Sænsku leikmennirnir komu til Íslands með flugvélinni Heklu kl. 19.30 fimmtudaginn 19. maí og höfðu því stoppað stutt hér á landi er leikurinn hófst kl. 21. Þeir létu ferðalagið ekkert á sig fá; mættu sprækir til leiks á Melavöllinn, þar sem var tekið vel á móti þeim. Þjóðsöngvar voru leiknir fyrir leik.
Það má segja að Svíarnir hafi tekið Íslendinga í kennslustund; voru yfir 8:0 í hálfleik og skoruðu tvö fyrstu mörkin í síðari hálfleiknum, 10:0! Þá náði Sveinn Helgason að skora fyrsta mark HKRR-úrvalsins, sem náði að rétta úr kútnum, 7:18.
Það er ekki hægt að segja að æsingur Íslendinga hafi verið fjarska rólegur í samanburði við Svía. Þeir buðu upp á leikaðferðina „rólegan æsing!“ Sveinn skoraði fjögur mörk, Kjartan, Sigurður og Jón eitt mark hver.
Yfirburðir Svía voru einnig í síðari leiknum, sem fór fram að Hálogalandi, 26:11. Þá lögðu Svíarnir Ármann að velli, 29:16, og Val, 21:4.
Baldur Kristjónsson dæmdi tvo leiki.
Það var mönnum ljóst að Íslendingar áttu langt í land til að nálgast getu Svía. Íslendingar lærðu mikið, eins og hraða, leikskipulag, skottækni, sendingar og varnarleik. Þá vakti sænski markvörðurinn Bertil Andersson mikla athygli fyrir mikla leikni. Íslendingar fengu þá í fyrsta skipti að kenna á sænskum markvörðum, sem voru þeim afar erfiðir lengi vel og eru enn í dag.
Leikmenn HKRR voru seinir í snúningum við fara aftur í vörn þegar þeir töpuðu knettinum.
Heimsókn Svíanna hafði mikil áhrif á þróun handknattleiksins á Íslandi. Það varð gjörbylting á handknattleiknum á Íslandi.
„Allir vilja skjóta!“
Lennart Hobber, fararstjóri IFK Kristianstad, sagðist vona að koma liðsins hafi orðið Íslendingum að gagni. Hann sagði að aðalgalli á íslenskum leikmönnum væri að allir vildu þeir skjóta. „Allir vilja gera mörk. En það gengur ekki. Menn verða að kunna að leika saman og sá sem hefur leikið sig frían á að fá knöttinn og skora mörkin. Ég hef trú á að handknattleikurinn eigi eftir að vera mjög vinsæll á Íslandi.“
Þjálfari liðsins, Karl Erik „Kinnan“ Nilsson, sem var einnig leikmaður, var gamall landsliðsmaður og einn kunnasti þjálfari Svía, sagði að Íslendingar verði að leggja áherslu á að leika skipulagðan sóknarleik og einnig að styrkja varnarleikinn, sem er ekki nægilega góður. „Það er áberandi galli hjá leikmönnum hvað þeir léku mikið upp miðjuna, í stað þess að nýta sér kantana, sem myndi gera varnarmönnum mótherjanna erfiðara fyrir. Einnig skorti þá nokkuð leikni í að grípa knöttinn með einni hendi og leika þannig með hann.“ Þá sagði „Kinnan“ að leikmenn þurfa að æfa meiri leikfimi og hlaup, og leggja sérstaka áherslu á snerpuna.
Það kom greinilega í ljós, þegar komið var út á stóran völl á Melavellinum 20×40, að íslensku leikmennirnir voru að hnoðast með knöttinn eins og í litlum innisölum, en keppnisvöllurinn að Hálogalandi er aðeins 11×28 m.
„Kinnan“ kom til að kenna!
Já, Svíarnir tóku Íslendinga í kennslustund. Og kennslan hélt síðan áfram um vorið 1948, þegar „Kinnan“ Nilsson kom til Reykjavíkur í boði Ármanns, til að halda kennslu- og þjálfaranámskeið í nokkrar vikur, sem voru eftirsótt og vinsæl. Þegar hann var spurður hvort hann sæi framfarir hjá Íslendingum, sagði hann: „Jú, Íslendingum hefur farið fram og þá sérstaklega er varnarleikurinn betri, en leikmenn lifa enn of mikið á líkamsstyrkleika sínum. Þá vantar meiri tækni. Það er enginn vandi að hlaupa og lítill vandi að skjóta, en meiri list og kunnátta er í því fólgið að staðsetja sig rétt. Byggja vel upp leikinn, gefa knöttinn vel frá sér og sýna öryggi í að taka við honum.“
Aðeins tvö félög svöruðu
Á fundi hjá HKRR 25. mars 1947 lagði Skúli Norðdahl, fulltrúi Ármanns, fram tillögu þess efnis, að HKRR beiti sér fyrir stofnun Handknattleikssambands Íslands. Tillögunni var mjög vel tekið. HKRR hófst þegar handa um stofnun HSÍ og skrifaði bréf til 17 aðila í Reykjavík og úti á landi. Áhuginn var ekki meira en svo hjá félögum, að aðeins tvö félög svöruðu bréfinu; Fram og Víkingur. Þar með var tilraun um stofnun HSÍ kæfð.
Danir með áframhaldandi kennslu
Danski þjálfarinn Henning Isachsen, sem kenndi handknattleik hjá ÍR, Fram og Víkingi um tíma 1947, var ÍR innan handar við að úrvalslið frá dönsku liðunum HG og Ajax kom til Reykjavíkur í maí 1948. Þegar Danirnir komu var búið að samþykkja tillögu ÍSÍ að leiktími væri 2×25 mín., sem var alþjóðlegur leiktími.
Úrvalslið HKRR var valið, en liðið lék tvo leiki gegn Dönum. Liðið var skipað þessum leikmönnum:
Valur: Sólmundur Jónsson, markvörður, Hafsteinn Guðmundsson, Garðar Halldórsson og Sveinn Helgason.
Ármann: Jón Erlendsson, Sigfús B. Einarsson, Sigurður G. Norðdahl, fyrirliði og Kjartan Magnússon.
Víkingur: Bjarni Guðnason.
ÍR: Ingvi Þorsteinsson.
Leikmenn HG/Ajax komu til landsins 18. maí með flugvél Loftleiða Heklu rétt fyrir kl. 20 og fóru þeir beint út á Melavöll, sem þeir léku við úrvalslið HKRR kl. 21.30. Danirnir fögnuðu sigri 15:11 og einnig í seinni leiknum við HKRR, 10:7. Þá unnu Danirnir Val 16:9 og ÍR 20:13.
Íslenskir handknattleiksmenn höfðu lært mikið af leikmönnum sænska liðsins Kristianstad, sem voru hér með kennslustund. Danir bættu við þá kennslu, en þeir voru leiknari en Svíar og léku hraðari handknattleik, sem byggðist mikið upp á línuspili. Íslendingar höfðu fengið kennslusund hjá Svíum um skottækni, leikskipulag og varnarleik hjá Svíum, hraða, línuspil og léttleika hjá Dönum.
Ármann til Finnlands og Svíþjóðar
Ármenningar ákváðu að fara til Finnlands í lok september 1949 og var það fyrsta utanlandsferð handknattleiksliðs á Íslandi. Þegar Svíar fréttu um ferð Ármenninga buðu þeir Ármenningum að koma til Stokkhólms og taka þátt í keppni úrvalsliða höfuðborga Norðurlanda sem gestir. Um var að ræða 15 ára afmælismót Handknattleikssambands Stokkhólms. Ármenningar þáðu boðið og fengu lof í sænskum blöðum og voru þeir vinsælastir hjá áhorfendum. Sagt var frá því að Íslendingar væru orðnir betri en Norðmenn og Finnar. Og að Íslendingar yrðu betri ef aðstæður væri betri á Íslandi, stærri íþróttahús.
Ármenningar unnu einn leik, lögðu Óslóarúrvalið, sem var norska landsliðið, að velli 6:5 í hörðum leik.
Stokkhólmur varð sigurvegari keppninnar með 8 stig (vann Ármann 12:4). Kaupmannahöfn fékk 6 stig (vann Ármann 17:6), Helsinki 3 stig (vann Ármann 9:4), Ármann 2 stig og Ósló 1 stig.
Ármenningar héldu síðan til Finnlands og gerðu jafntefli við finnska meistaraliðið Union, 16:16, og fögnuðu síðan sigri á meisturunum, 10:8. Þriðji leikurinn vannst einnig, gegn Turun Toverite, 20:10.
Ákveðið að senda lið á HM í Svíþjóð
ÍSÍ fékk bréf frá Alþjóða handknattleikssambandinu, IHF, í október 1949 að heimsmeistarakeppnin í handknattleik innanhúss færi fram í Svíþjóð 14. til 21. febrúar 1950 og var spurt hvort að Ísland myndi senda lið til keppni. ÍSÍ, sem sá um öll samskipti við IHF, hafði samband við HKRR og leitaði álits ráðsins á málinu; hvort möguleikar væru á, að Ísland tæki þátt í keppninni. Eftir að málið var kannað, var einróma lagt til, að Ísland tæki þátt í keppninni, svo framarlega sem fjárhagur og annar nauðsynlegur undirbúningur leyfði. Stjórn ÍSÍ skipaði þegar undirbúningsnefnd, er annast skyldi allan undirbúning varðandi förina í samráði við framkvæmdastjórn ÍSÍ. Nefndina skipuðu Sigurður G. Norðdahl fulltrúi ÍSÍ, formaður, Hafsteinn Guðmundsson, formaður HKRR, Jón Guðmundsson, Ungmennasambandi Kjalarnesþings, Gísli Sigurðsson, formaður Íþróttabandalags Hafnarfjarðar og Sigurður Magnússon, fyrrverandi formaður HKRR og þjálfari.
Nefndin átti auk þess að annast undirbúning, að gera tillögur til ÍSÍ um skipun landsliðsnefndar. Þegar nefndin kom sér ekki saman um þrjá landsliðsnefndarmenn, var ákveðið að Sigurður Magnússon yrði einvaldur, sem myndi sjá um:
1) að velja út menn til æfinga.
2) að semja æfingaskrá og sjá svo um að hún sé haldin jafnt utan leikvangs sem innan.
3) að ráða þjálfara.
4) að velja hið endanlega landslið, sem sent verður út og varamenn þeirra.
Sigurður valdi þessa leikmenn:
Frá Ármanni: Kjartan Magnússon, Sigurður G. Norðdahl, Sigfús Einarsson, Snorri Ólafsson, Magnús Þórarinsson og Haukur Bjarnason.
Frá Val: Sveinn Helgason, Hafsteinn Guðmundsson, Sólmundur Jónsson, Valur Benediktsson, Sigurhans Hjartarson.
Frá Fram: Birgir Þorgilsson, Kristján Oddsson og Sveinn H. Ragnarsson.
Frá ÍR: Ingvi Þorsteinsson og Rúnar Bjarnason.
Frá KR: Hörður Felixson og Guðmundur Georgsson.
Frá Víkingi: Þórir Tryggvason og Axel Einarsson.
Orri Gunnarsson, Fram, og Halldór Lárusson, Aftureldingu, voru einnig valdir, en íþróttalæknir taldi ekki rétt að þeir tækju þátt í svo erfiðum æfingum, vegna heilsu sinnar.
Þjálfari var ráðinn Stefán Kristjánsson, íþróttakennari.
Það þótti athyglisvert, þegar litið var yfir hópinn, að í honum eru tíu leikmenn, sem stunduðu nám í framhaldsskólum og fimm sem nýlega höfðu verið í framhaldsskólum. Þetta þótti sanna áþreifanlega, hversu handknattleikurinn á sterk ítök meðal skólaæskunnar, enda er handknattleikurinn vafalaust sú íþróttagrein sem mestum vinsældum átti að fagna í skólunum og það að verðleikum.
Það var ákveðið að hefja æfingar að loknu Reykjavíkurmóti í nóvember. Sigurði var frjálst að gera breytingar í leikmannahópnum.
Sveinn gaf frá sér!
Sveinn Halldór Ragnarsson, einn af lykilmönnum Framliðsins sem varð Íslandsmeistari 1950 undir stjórn Sigurðar Magnússonar, dró sig út úr hópnum og gaf ekki kost á sér þar sem hann þurfti að nota gleraugu dagsdaglega. Sveinn taldi að hann gæti ekki leikið af fullum krafti fyrir hönd Íslands það sem sjón var ekki nægilega góð, án gleraugna. Gaf sæti sitt eftir – taldi að rétt væri að nýta sjónsterkari leikmenn. Þarna var Sveini rétt lýst – hann vildi að vandað væri til verka og þeir sem væru betur fallnir til verka en aðrir – hverju sinni, færu í verkin.
Sveinn varð síðan þjálfari hjá Fram bæði í handknattleik og knattspyrnu. Var einnig sterkur starfskraftur hjá Fram, HSÍ og ÍSÍ.
Áttum að mæta Frökkum
Alls tilkynntu átta lönd þátttöku sína í HM 1950; Ísland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur, Finnland, Frakkland, Ungverjaland og Austurríki. Vitað var að Svíar og Danir voru í nokkrum sérflokki og sigurstranglegastir.
Mótið átti að fara fram með útsláttarfyrirkomulagi og var ljóst að Ísland átti að mæta Frökkum í Lundi 16. febrúar og sigurvegarinn léki síðan gegn Danmörk/Noregi.
Á hinum vængnum léku Svíþjóð – Finnland og Austurríki – Ungverjaland.
Frakkar þótt ekki sterkir, þannig að möguleikar Íslands að komast í undanúrslit voru góðir. Danir yrðu erfiðir, en miklar líkur væru á að leikið yrði við Ungverja um þriðja sætið.
Í lok nóvember 1949 valdi Sigurður, sem var orðinn þjálfari landsliðsins, leikmannahóp sinn fyrir HM, en hann var þannig skipaður.
Valur: Sólmundur Jónsson, markvörður, Hafsteinn Guðmundsson, Sigurhans Hjartarson, Sveinn Helgason, Valur Benediktsson,
Ármann: Jón Erlendsson, Kjartan Magnússon, Magnús Þórarinsson, Sigurður G. Norðdahl, Snorri Ólafsson.
Fram: Birgir Þorgilsson, Kristján Oddson.
ÍR: Gunnar Haraldsson, Ingvi Þorsteinsson.
Farið til Svíþjóðar og Danmerkur
Í byrjun árs 1950 var ákveðið að hætta við HM í Svíþjóð. Ástæðan fyrir því var að Ungverjar, Frakkar og Austurríkismenn hættu við þátttöku og voru þá aðeins eftir fimm Norðurlandaþjóðir. Svíar og IHF töldu að minnst sex landslið yrðu að vera með, til að HM færi fram
Svíar léku fjóra landsleiki sama dag!
Þegar ljóst var að HM færi ekki fram í Svíþjóð, buðu Svíar hinum Norðurlöndunum fjórum, að keppa við þau landsleik; öll sama daginn – 15. febrúar; við Ísland í Lundi, Noreg í Gautaborg, Finnland í Örebro og Danmörku í Stokkhólmi. ÍSÍ þótti ekki tiltækilegt að leggja í slíka ferð fyrir aðeins einn leik. Var þá rætti við Dani um leik í Kaupmannahöfn, og tókust samningar um það. Svíum var tilkynnt þetta og kom þá endanlegt boð þeirra um landsleik og tvo aðra leiki í Svíþjóð. Það voru leikir við tvo bæði á Skáni, Trelleborg og Angelholm.
ÍSÍ reyndi að fá landsleik við Noreg í ferðinni, en það tókst ekki.
Sigurður Magnússon valdi 14 manna hóp til ferðarinnar og var hann þjálfari liðsins. Fararstjóri og leikmaður var Sigurður G. Norðdahl, Ármanni, en aðrir voru leikmenn fá þessum liðum:
Valur: Sólmundur Jónsson, markvörður, Hafsteinn Guðmundsson, Valur Benediktsson, Sveinn Helgason, Sigurhans Hjartarson,
Ármann: Magnús Þórarinsson, Kjartan Magnússon, Snorri Ólafsson og Jón Erlendsson, sem lék ekki í ferðinni, þar sem hann meiddist á auga í skólaleik í Svíþjóð. Jón var í tveggja ára námi við Íþróttaháskólann í Stokkhólmi, 1949-1951.
Fram: Birgir Þorgilsson og Kristján Oddsson.
ÍR: Gunnar Haraldsson og Ingvi Þorsteinsson.
Svíar unnu öruggan sigur í Lundi, 15:7 og Danir fóru létt með Íslendinga í Kaupmannahöfn, 20:6. Danir tefldu ekki fram sínu sterkasta landsliði, þar sem Danmörk var að leika gegn Svíþjóð sama dag í Svíþjóð. Það kom í ljós að Íslendingar áttu mikið eftir ólært í listum handknattleiksins og þá hafði það mikið að segja að þeir voru óvandir að leika á stórum keppnisvöllum. Sveinn Helgason skoraði fyrsta landsliðsmark Íslands; í leiknum í Lundi.
Fyrsta landslið Íslands var skipað þessum leikmönnum: Sólmundur, markvörður. Aðrir leikmenn: Magnús, Sveinn 2, Snorri 2, Hafsteinn, Valur, Sigurður 1, Kjartan 2, Kristján og Birgir.
Hafsteinn og Sveinn léku einnig fyrsta landsleik Íslands í knattspyrnu, gegn Dönum á Melavellinum 1946, 0:3.
Finnar koma til Íslands
Fyrsti landsleikur Íslands á heimavelli fór fram á Melavellinum 23. maí 1950, gegn Finnlandi. Finnar komu til Íslands með Gullfossi og fóru aftur héðan með skipinu eftir að hafa leikið fjóra leiki. Leikið var við erfiðar aðstæður; rok og rigningu. Þær settu svip sinn á leikinn og voru aðeins sex mörk skoruð í 50 mín., 3:3. Valur Benediktsson skoraði fyrsta mark Íslands á heimavelli, en hin mörkin skoruðu Birgir Þorgilsson og Orri Gunnarsson.
Aðrir leikmenn voru Sólmundur, Magnús, Sveinn, Sigurður, Kristján, Sigurhans og Þorleifur Einarsson, ÍR, sem var nýliði.
Liðið var valið af fimm manna landsliðsnefnd, sem var skipuð þessum mönnum: Halldór Erlendsson og Grímar Jónsson frá HKRR, en ÍSÍ tilnefndi Sigurð Magnússon, Jón Björnsson og Þorgils Guðmundsson.
Dómari var Halldór Erlendsson, línuverðir Sigfús B. Einarsson og Einar Ingvarsson, markadómarar Sigurður Magnússon og Jón Björnsson.
Varamenn voru: Guðmundur Georgsson, KR, Haukur Bjarnason, Ármanni, Snorri Ólafsson og Hilmar Ólafsson, Fram.
Finnar léku þrjá aðra leiki og fögnuðu sigri í þeim öllum í Hálogalandi – gegn Ármanni 12:11, gegn Fram 7:4 og gegn úrvalsliði HKRR 10:9. Úrvalsliðið var þannig skipað: Sólmundur, Hilmar, Valur, Haukur, Orri, Sveinn, Birgir, Sigfús, Kristján og Sigurhans.
Ísland ekki með á HM 1954
Íslenska landsliðið var ekki með á HM í Svíþjóð 13. til 17. janúar 1954, þar sem erfitt var að fjármagna þátttöku.
Tíu þjóðir fyrir utan Svía tilkynntu þátttöku, Danir, Frakkar, Svisslendingar, Tékkar, Vestur-Þjóðverjar, Austurríkismenn, Finnar, Norðmenn, Spánverjar og Ungverjar. Þar sem var búið að ákveða að aðeins sex þjóðir yrðu með á HM.
Því fór fram forkeppni, þar sem keppt var um sæti; sigurvegarar kæmust til Svíþjóðar.
Þessi lönd mættust í byrjun desember 1953:
Neumunster: Vestur-Þýskaland – Finnland 21:10.
St. Gallen: Sviss – Austurríki 15:11.
Prag: Tékkóslóvakía – Ungverjaland 13:8.
Ósló: Noregur – Danmörk 11:26.
Nantes: Frakkland – Spánn 23:11.
Keppt var í tveimur þriggja liða riðlum á HM. Svíar urðu sigurvegarar í A-riðil með 4 stig, Tékkar í öðru sæti og Danir í því þriðja. Vestur-Þjóðverjar urðu sigurvegarar í B-riðli með 4 stig, Sviss og Frakkland gerðu jafntefli, en Sviss hafnaði í öðru sæti á betri markatölu.
Leikið var um sæti og fóru leikirnir þannig:
5. sæti: Danmörk – Frakkland 23:11.
3. sæti: Tékkóslóvakía – Sviss 24:11.
1. sæti: Svíþjóð – V-Þýskaland 17:14.
* 5.500 áhorfendur sáu úrslitaleikinn, sem fór fram í Mässhallen í Gautaborg. Þjálfari Svía var „Íslandsvinurinn“ Curt Wadmark.
Taka þátt í HM í Austur-Þýskalandi 1958
Ég mun í næsta pistli segja frá stofnun Handknattleikssambands Íslands og þegar Íslendingum var boðið að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í Austur-Þýskalandi 1958. Hannes Þ. Sigurðsson tók þá við boðinu á ráðstefnu Alþjóða handknattleikssambandsins í Stokkhólmi í Svíþjóð 1956, en þar var tilkynntar miklar breytingar á handknattleiknum. Það mátti fara að rekja knöttinn í stað þess að taka þrjú skref, stinga knettinum niður og taka önnur þrjú skref; og senda knöttinn.
Tak så mycket,
På återseeude!
Sigmundur Ó. Steinarsson.